Kínversk lögregluyfirvöld hafa handtekið ungan háskólastúdent sem gekk líklega aðeins of langt í frumkvöðlastarfsemi sinni. Frumkvöðullinn, sem er 25 ára að aldri og er kallaður Ma í erlendum miðlum, er grunaður um að hafa stolið gögnum frá nemendaskrá hins virta Renmin-háskóla í Peking, þar sem hann hafði nýlega útskrifast, og notað þau til að búa til vefsíðu þar sem hægt var að gefa nemendum einkunn eftir því hversu föngulegir þeir voru. CNN greinir frá.
Frumkvöðlastarfsemi Ma þykir minna á upphaf Mark Zuckerberg, stofnanda Facebook, en upphaf samfélagsmiðilsins má rekja til síðunnar FaceMash, sem hann bjó til, en þar gátu gestir einmitt borið saman myndir af nemendum í Harvard-háskóla og metið hver bæri af. Síðan var síðan tekin niður vegna persónuverndarsjónarmiða.
Ólíklegt er þó að Ma nái sömu hæðum og Mark því að uppátæki hans var afar illa tekið í Kína og kölluðu reiði netverjar eftir því að honum yrði refsað. Umræða um málið tók yfir samfélagsmiðilinn Weibo, sem er einskonar kínversk útgáfa af Twitter.
Af skjáskotum af síðunni mátti sjá að Ma hafi opnað vefinn árið 2020, þegar hann var enn nemandi við háskólann, og þar mátti sjá nemendamyndir af háskólanemu þar sem fram kom nafn þeirra, fæðingardagar og jafnvel einkunnir.
Skólayfirvöld hafa fordæmt athæfi Ma og illu heilli fyrir hann gáfu lögregluyfirvöld í Peking út yfirlýsingu þar sem því var heitið að hart yrði tekið á Ma, öðrum stafrænum þjófum til varnaðar.