Breski raðmorðinginn Levi Bellfield verður brátt yfirheyrður að nýju en The Sun greinir frá því að hann hafi í skrifað bréf þar sem hann játar á sig hvar 19 ára stúlku, Elizabeth Chau, árið 1999 sem vakti mikla athygli í bresku þjóðfélagi. Chau sást í öryggismyndavélum yfirgefa háskólabyggingu Thames Valley University, þar sem hún stundaði nám en síðan hvarf hún sporlaust.
Bellfield, sem er 54 ára gamall, er alræmdur raðmorðingi sem níddist á ungum stúlkum en hingað til hefur hann játað á sig þrjú morð. Morðiði á hinni þrettán ára gömlu Milly Dowler, Amelie Delagrange sem var 22 ára gömul og morðið á hinni 19 ára gömlu Marsha McDonnel.
Auk morðsins á Chau, sem Bellfield hefur nú játað á sig, þá hefur hann einnig bent á þann stað sem lík hennar á að vera grafið sem og játað á sig fimm aðrar morðtilraunir. Eins og áður segir vakti hvarf Chau mikla athygli. Árið 2012, þrettán árum eftir hvarf hennar, blés Scotland Yard til herferðar þar sem heitið var háum peningaverðlaun fyrir upplýsingar um eitthvað sem gæti leitt til þess að hún eða líkamsleifar hennar fyndust. Sú herferð skilaði engum haldbærum niðurstöðum en nú vonast ættingjar og vinir Chau til þess að þolraun þeirra sé að ljúka og brátt verði upplýst hvað varð um stúlkuna.
Í mars síðastliðnum vakti Bellfield mikið umtal og reiði í bresku samfélagi. Hann afplánar lífstíðardóm í Frankfield-fangelsinu í Durham-sýslu þar sem flestir hættulegustu glæpamenn Bretlands dúsa. Það voru hins vegar fréttir af því að hann hefði trúlofast fertugum kvenkyns aðdáanda sínum og hygðist giftast henni sem setti allt á hliðina.
Reiðialda gaus upp í samfélaginu og lýstu ýmsir breskir stjórnmálamenn því yfir, þar á meðal Dominic Raab, að komið yrði í veg fyrir að Bellfield, og aðrir hættulegir glæpamenn sem afplána lífstíðardóma, gætu gengið í hjónaband á bak við lás og slá.