Þann 14. september árið 2007 skrópaði Andrew Gosden í skólann. Vitni sáu hann ganga í gegnum almenningsgarð í átt að strætóstoppistöðinni þar sem hann var vanur að bíða eftir skólarútunni en hann fór aðra leið þennan örlagaríka morgun. Hann fór í hraðbanka og tók þar út næstum allan peninginn á reikningnum sínum, um 200 pund, sem eru um 34 þúsund krónur á núverandi gengi.
Hann fór aftur heim og sást til hans á öryggismyndavél nágrannans. Heima setti hann skólabúninginn sinn í þvottavélina og jakkann á stólbakið. Hann fór síðan í venjuleg föt, svartan bol merktan hljómsveitinni Slipknot og svartar gallabuxur. Hann setti veskið sitt, lykla og litla PlayStation tölvu í tösku. Samkvæmt erlendum miðlum tók hann ekki vegabréfið með sér.
Klukkan hálf níu um morguninn fór Andrew frá heimili sínu og á lestarstöðina í Doncester. Þar keypti hann farmiða til London, aðeins aðra leiðina.
Sá sem vann í miðasölunni þennan dag mundi eftir Andrew. Farmiðinn kostaði um 5400 krónur en fyrir aðeins rúmlega 80 krónur í viðbót var hægt að kaupa miða fyrir leiðina til baka. Maðurinn í miðasölunni sagði að hann hafi sagt það við Andrew en drengurinn hafi verið ákveðinn að fara aðeins aðra leiðina.
Klukkan 9:35 sást til drengsins fara um borð í lestina. Kona, sem sat við hliðina á honum í lestinni, sagði að hann hafi verið hljóðlátur og verið mjög einbeittur við að spila tölvuleik.
Andrew fór út á Kings Cross lestarstöðinni klukkan 11:20. Það sást til hans á öryggismyndavél yfirgefa lestarstöðina klukkan 11:25. Þetta var í síðasta skipti sem hann sást.
Leitin að Andew var umfangsmikil og leituðu mörg hundruðir sjálfboðaliða að honum en það var eins og jörðin hafi gleypt hann. Þetta er eitt dularfyllsta mannshvarf í sögu Bretlands.
Margir veltu fyrir sér hvað hafi gerst, enda var Andrew bráðgáfaður piltur. Honum gekk vel í skóla og hann var hvorki í óreglu né slæmum félagsskap. Hins vegar hafa erlendir miðlar greint frá því að dagana fyrir hvarf hans hafi hann verið byrjaður að sýna merki um þunglyndi.
Í janúar 2022 voru tveir menn handteknir, 38 ára og 45 ára, grunaðir um að hafa rænt og selt Andew í mansal. Nú er ár liðið og þeim hefur verið sleppt úr haldi en liggja enn undir grun og lögreglan rannsakar málið.
Foreldrar hans, Kevin og Glenys Gosden, hafa ekki gefist upp og halda enn í vonina að Andrew sé á lífi. Fyrir nokkrum árum birtu þau mynd sem sýnir hvernig Andrew myndi líta út í dag.