Þetta eru niðurstöður nýrrar rannsóknar að sögn The Guardian. Fram kemur að í rannsókninni hafi tíðni þunglyndis og kvíða hjá tæplega 500.000 fullorðnum Bretum verið rakin á 11 ára tímabili. Niðurstaðan var að þeir sem bjuggu á svæðum þar sem loftmengun var mikil, voru líklegri til að glíma við þunglyndi og kvíða og átti það einnig við þegar mengunin var innan leyfilegra marka.
Í grein vísindamannanna, sem gerðu rannsóknina, kemur fram að niðurstöðurnar bendi til að þörf sé á strangari reglum hvað varðar leyfileg mengunargildi og hvað varðar eftirlit með mengun.
Lengi hefur verið vitað að loftmengun veldur öndunarfærasjúkdómum og hefur áhrif á slíka sjúkdóma. Vísindamennirnir segja að sífellt fleiri gögn sýni fram á tengsl loftmengunar og andlegrar vanlíðunar.