Samkvæmt frétt Vice sendi hinn umdeildi Andrew Tate fjölda af skilaboðum á meintan þolanda sinn þar sem hann hafi ítrekað viðurkennt brot sitt. Þolandinn deildi skilaboðunum með Vice, en hún er þriðja konan til að stíga fram í miðlinum og greina frá því að hafa leitað til lögreglu vegna meintra brota Andrews.
Sjá einnig: Hver er Andrew Tate? Sagður vera hættulegasti maðurinn á Internetinu
Í einu skilaboðanna er hann sagður hafa ritað: „Ég elska að nauðga þér“ og í raddskilaboðum sem hann sendi spyr hann „Er ég slæm manneskja? Út af því að því meira sem þú vildir þetta ekki, því meira naut ég þess. Hvers vegna er ég svona?“
Meintur þolandi Andrew er í umfjölluninni kölluð Amelia og er hún sögð hafa leitað til lögreglu í Englandi eftir að Andrew braut gegn henni árið 2013 til að kæra hann. Hann var svo handtekinn árið 2015 en saksóknarar neituðu að ákæra. Amelia segir að lögreglumaður hafi sagt henni að „únsa af efa“ hefði gert út um málið. Efinn hafði verið sá að Amelia hætti ekki að hitta Andrew eftir að brotið átti sér stað.
Amelia segir að það hafi verið erfitt eftir hið meinta brot og eftir að saksóknari felldi málið niður að fylgjast með Andrew verða að einum frægasta manni á Internetinu. Hún segist ekki lengur vilja lifa í ótta og það sé skilda hennar að deila sögu sinni til að koma í veg fyrir að fleiri konur verði fyrir því sama.
Hún segir að hann hafi nauðgað sér í fyrsta sinn sem hún hafi farið heim til hans, en þau höfðu verið að hittast í nokkrar vikur og til þess aðeins kysst hvort annað, en ekkert meira.
Hún hafði sagt honum að hún væri ekki tilbúin að stunda kynlíf, hann hafi svo horft á hana og sagt að hann væri að velta fyrir sér hvort hann ætti að nauðga henni eða ekki.
Hann hafi gripið í hálsinn á henni og þrengt að og neytt hana úr buxunum.
„Ég var að reyna að halda þeim uppi og þá fór hann að öskra á mig – Farðu úr helvítis buxunum tíkin þín“
Á þessum tíma var Andrew atvinnumaður í „kickbox“ og upplifði Amelia að hún hefði ekkert vald í stöðunni.
„Ég hafði aldrei verið kyrkt áður. Ég veit þarna ekki hvort hann muni hætta. Og ég var svo hrædd. Þetta er svona eins og, þegar maður hugsar um að vera í þessari stöðu, þá heldur maður að maður muni berja frá sér. En ég er að segja ykkur það að maður gerir það ekki. Því ef maður ber frá sér, hvað annað er hann að fara að gera manni?“
Andrew hafi svo nauðgað henni. Á meðan hafi hann haldið áfram að þrengja að hálsi hennar og skipað henni að segja nafn sitt.
„Hann sagði: Segðu það tík. Þú ert ekki að segja nafnið mitt, segðu fokking nafnið mitt annars drep ég þig.“
Eftir að hafa lokið sér af sofnaði Andrew með hendurnar utan um hana. Hún lá eftir vakandi og reyndi að átta sig á því sem hefði gerst. Hún fór svo heim daginn eftir, grét í baði og hringdi í vin sem sagði henni að henni hafi verið nauðgað. Vice ræddi við umræddan vin sem staðfesti frásögnina.
Amelia segir að hún hafi haldið áfram að hitta Andrew eftir að þetta gerðist, hún hafi verið í afneitun og ekki viljað horfast í augu við það sem gerðist. En slík eru þekkt viðbrögð við nauðgun.
Sex mánuðum síðar ákvað hún að kæra en upplifði það ferli sem afar niðurlægjandi. Lögreglumenn hafi gert lítið úr henni og fannst henni hún ekki tekin alvarlega.
Hún afhenti Vice sömu samskipti við Andrew og hún afhenti lögreglunni. Auk áðurnefndra skilaboða sagði Andrew sem dæmi:
„Þegar þú ert undir minni stjórn geri ég það sem mér sýnist“
„Ég er einn af hættulegustu mönnunum á plánetunni. Stundum gleymir þú því nákvæmlega hversu heppin þú ert að þér sé riðið af mér“
„Ertu í alvörunni móðguð yfir að ég hafi kyrkt þig smá? Þú misstir ekki meðvitund. Slakaðu á. Jesús Kristur, ég hélt þú værir svöl, hvað er að þér?“
Sérfræðingar á sviði kynferðisofbeldis sögðu í samtali við Vice að ekki megi líta svo á að það geri minna úr reynslu þolenda þó þeir haldi áfram að hitta gerendur sína eftir bort. Það væri frekar ófaglegt af saksóknaraembættinu að líta til þess við ákvörðun á því hvort ákæra ætti í máli.