Ástralskur karlmaður fékk á dögunum tæplega 100 þúsund króna sekt eftir að eftirlitsmyndavél náði mynd þar sem hann virðist vera að þiggja munnmök á meðan á akstri stendur.
Talsmaður samgöngustofnunar Ástralíu (Department of Transport and Main Roads) segir í samtali við Daily Mail að ástæðan fyrir sektinni sé sú að farþeginn er ekki í bílbelti. Í sumar tóku ný og harðari umferðarlög gildi í Ástralíu sem eiga að stemma stigu við því að fólk sé ekki í bílbelti eða í símanum undir stýri. Nú fá Ástralir því sekt sem þessa fyrir að vera ekki í bílbelti en lögin gilda aðeins um þá farþega sem eru í framsætum bifreiða.
Þá segir talsmaðurinn að fólkið á myndinni hefði getað endað í alvarlegu slysi, sérstaklega í ljósi þess að farþeginn er ekki í belti. Auk þess sagði talsmaðurinn að það væri ekki algengt að eftirlitsmyndavélar nái myndum af svona löguðu.
Myndinni sem um ræðir var deilt á Facebook og hafa netverjar rifist um það hvort að í raun og veru sé farþeginn að veita bílstjóranum munnmök. Fjölmargir voru fljótir að draga þá ályktun að svo væri en aðrir voru þó skeptískari. Til að mynda var sú kenning lögð fram að farþeginn væri í raun og veru bara sofandi.