Dagbladet segir að niðurstöður nýrrar rannsóknar sýni að það geti verið aukaverkanir af verkjalyfjum, sem innihalda íbúprófen, eins og öllum öðrum lyfjum.
Þessar aukaverkanir geta verið sérstaklega hættulegar ef blóðþrýstingslyf eru notuð.
Í rannsókninni er varað við að taka verkjalyf, sem innihalda íbúprófen, samhliða blóðþrýstingslyfjum. Nánar tiltekið er það blanda af Furosemid, sem er vatnslosandi og blóðþrýstingslækkandi lyf sem hefur áhrif á RAS-kerfið og íbúprófen sem átt er við.
Ef þessi lyf eru notuð samtímis er hætta á nýrnaskemmdum og í versta tilfelli dauða. Þetta kemur fram í niðurstöðum rannsóknarinnar sem var gerð af vísindamönnum við Waterloo háskólann í Kanada á vegum kanadísku rannsóknarstofnunarinnar Canada 150 Research Chair sem er fjármögnuð af ríkinu.
Dagbladet hefur eftir Morten Finckenhagen, yfirlækni hjá norsku lyfjastofnuninni, að niðurstaða rannsóknarinnar sé að litlar líkur séu á að ungt og heilbrigt fólk fái nýrnavandamál með því að taka þessi lyf samtímis en venjulega sé það eldra fólk sem noti þau. „Ef það er til dæmis 82 ára amma getur það haft banvænar afleiðingar. Eldra fólk er mjög oft með skerta nýrnastarfsemi og á að halda sig frá íbúprófeni og líkum lyfjum,“ sagði hann.
Hann hvetur fólk til að nota frekar parasetamól við verkjum og ef fólk er orðið 65 ára eða eldra á það að forðast að nota íbúprófenlyf að hans sögn.