„Við höfum alltaf talið að svæðið norðan við Grænland myndi vera einhverskonar athvarf fyrir ísinn, hann myndi verða þar.“
Hefur BBC eftir Walt Meier, hjá bandarísku ís- og snjóstofnuninni (NSIDC).
Í sumar opnaðist tug kílómetra breitt sund á svæðinu þegar ísinn lét undan. Vindur ýtti ísnum á brott frá ströndinni og út í Pólhafið og því hefur myndast íslaust svæði norðan við Grænland þar sem þykkur ís ætti að vera til staðar.
Þetta er í annað skipti á þessu ári sem þetta gerist en aldrei áður hefur þetta gerst tvisvar á einu ári síðan mælingar með gervihnöttum hófust á áttunda áratugnum segir í umfjöllun The Guardian. Í febrúar var sama staða uppi en það var í fyrsta sinn sem hafsvæðið var íslaust að vetri til en það hafði áður gerst nokkrum sinnum að sumri til.
Ísinn norðan við Grænland hefur þynnst í kjölfar hlýrra sumra og því hreyfir vindurinn hann auðveldlega úr stað.