Landlæknisembættið hefur gefið út leiðbeiningar til heilbrigðisstarfsfólks um hvernig á bregðast við andláti. Leiðbeiningarnar eru ætlaðar til upplýsinga og stuðnings þegar andlát bera að eins og segir í þeim.
Fram kemur að þegar andlát bera á heilbrigðisstofnun eigi alltaf að kalla til lækni sem staðfestir andlátið og gefur út dánarvottorð. Ef ættingjar eru ekki viðstaddir andlátið skal haft samband við þá hið fyrsta.
Í sorgarferlinu er umbúnaður hins látna mikilvægur og ef aðstandendur vilja vera með í ferlinu ber að virða það. Aðstandendur skulu spurðir ef einhver vafaatriði eru uppi um útlit hins látna eða tilhögun á umhverfi. Fjarlægja á allar nálar, slöngur og aðra aðskotahluti úr hinum látna. Líkami hans skal réttur af og skartgripir fjarlægðir. Hinn látni er þveginn á venjulegan hátt og hár greitt og þvegið ef þörf er á. Karlmenn eru rakaðir og konur snyrtar í samráði við aðstandendur. Búið er um sár og bómull sett í endaþarm, því næst bleiustykki og netbuxur yfir. Hinn látni er klæddur í skyrtu en börn oftast eins og foreldrar þeirra óska. Hreint lín skal sett á rúmið og sæng skal höfð yfir hinum látna á meðan aðstandendur eru á staðnum.
Þá er farið ítarlega yfir hvernig eigi að ganga frá eigum hins látna og að taka eigi tillit til óska aðstandenda hvað varðar kveðjustund. Einnig er farið yfir hvernig eigi að standa að flutningi hins látna.
Hér er hægt að lesa leiðbeiningarnar í heild sinni.