fbpx
Fimmtudagur 25.apríl 2024

Forréttindi að vera í tónlistarbransanum

Karl Olgeirsson og Jón Rafnsson koma fram með Helenu Eyjólfsdóttur á tónleikum í Salnum

Kolbrún Bergþórsdóttir
Miðvikudaginn 5. apríl 2017 09:07

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Tónlistarmennirnir Karl Olgeirsson og Jón Rafnsson eru í hópi þeirra sem koma fram með söngkonunni Helenu Eyjólfsdóttur á tónleikum í Salnum í Kópavogi, föstudaginn 7. apríl. Þar syngur söngkonan lög af geisladiskinum Helena sem kom út fyrir síðustu jól. Karl stjórnaði upptökum og sá um útsetningar og það er fyrirtæki Jóns, JR Music, sem gefur geisladiskinn út. „Það er frábært að koma fram með manneskju eins og Helenu, sem er lifandi goðsögn,“ segir Jón. „Hún er yndisleg manneskja með mikla og einlæga útgeislun.“ Karl tekur í sama streng: „Það var frábært að vinna með Helenu, algjör draumur.“

Hugmyndin að geisladisknum fæddist fyrir þremur árum í samtali Jóns og Helenu. „Við ákváðum að gera stúdíóplötu,“ segir Jón. „Helena fékk slatta af lögum til að hlusta á, meðal annars óskaplega fallegt lagt frá Jóhanni G. heitnum og svo bað hún menn eins og Magnús Eiríksson og Ingva Þór Kormáksson að semja fyrir sig lög og einnig eru þarna lög eftir Karl. Svo eru á plötunni nokkur erlend uppáhaldslög sem hafa fylgt Helenu og hún lét gera íslenska texta við.“

Lög Karls Olgeirssonar á disknum eiga sér skemmtilega forsögu. „Fyrir um það bil tólf árum fékk ég stóra hugmynd um að krækja mér í hluta af íslensku tónlistarsögunni og gera plötu með fjórum goðsögnum: Skapta Ólafssyni, Svanhildi Jakobs, Ragga Bjarna og Helenu Eyjólfs,“ segir Karl. „Ég tók nafnið úr gamalli Humphrey Bogart-mynd, Engir englar, og samdi lög á þessa plötu með félaga mínum Trausta Einarssyni. Ég ætlaði að fá þessa söngvara til að syngja inn á plötuna. Aldrei varð neitt af því. Svo fékk ég allt í einu þetta tækifæri til að vinna með Helenu og tvö þeirra laga sem ég samdi fyrir Enga engla fóru á plötuna hennar, Reykur og Saman á ný þar sem Þorvaldur Halldórs syngur með henni.“

Félagarnir komu fram með Helenu á tónleikum á Akureyri um síðustu helgi. Þeir heppnuðust mjög vel, mæting var góð og stemningin frábær. Gestir kunnu greinilega vel að meta dagskrána, en hún samanstóð af öllum lögum nýju plötunnar auk nokkurra uppáhaldslaga sem fylgt hafa Helenu á hennar 60 ára söngferli. Dagskráin verður flutt í Salnum í Kópavogi næstkomandi föstudag. Þar syngur Helena með hljómsveit en hana skipa Karl Olgeirsson á píanó og hljómborð, Stefán Már Magnússon á gítar, Sigurður Flosason á blásturshljóðfæri og slagverk, Jón Rafnsson á bassa og Benedikt Brynleifsson á trommur. Sigríður Eyrún Friðriksdóttir kemur einnig fram á tónleikunum og sömuleiðis Þorvaldur Halldórsson. Þorvaldur og Helena eiga 50 ára samsöngafmæli í ár, byrjuðu að skemmta saman í Sjallanum árið 1967.

Forréttindi að vera tónlistarmaður

Jón Rafnsson starfar sem tónlistarkennari við Tónlistarskólann í Hafnarfirði þar sem hann kennir klassískan kontrabassaleik og rafbassaleik. Hann hefur lengi verið áberandi í íslensku tónlistarlífi, leikur með nokkrum tónlistarhópum og hefur unnið í leikhúsum. Karl Olgeirsson er fjölhæfur listamaður, hljóðfæraleikari, tónlistarstjóri, útsetjari og lagahöfundur og hefur samið tónlist fyrir sjónvarp og kvikmyndir.

Þeir félagar starfa saman í Hot Eskimos og þar leikur Karl á píanó, Jón á bassa og þriðji meðlimurinn, Kristinn Snær Agnarsson, ber trommurnar. Báðir segjast Karl og Jón snemma hafa fengið áhuga á tónlist. „Tónlist hefur alltaf haft djúp áhrif á mig. Fjögurra ára var ég farinn að semja lög og spila á hljóðfæri og hef aldrei hætt því,“ segir Karl. „Þegar ég byrjaði í menntaskóla var ég búinn að ákveða að verða tónlistarmaður, en ákvað að klára skólann til að hafa þá menntun fyrir mömmu og pabba svona til að gleðja þau. Mér finnst það vera forréttindi að vera tónlistarmaður. Maður þarf að vísu alltaf að vera að til að geta lifað af því, en það er allt í lagi því þetta er svo skemmtilegt starf,“ segir Karl.

„Ég ólst upp á heimili þar sem var mikill áhugi á tónlist,“ segir Jón. „Foreldrar mínir sungu í kór í áratugi og pabbi spilar á orgel. Þau hvöttu mig mjög til að fara í músíknám. Ég ákvað að verða tónlistarmaður, hætti í Versló þegar ég var átján ára en á þessum tíma var ég búinn að vera spilandi í sveitaballabransann í tvö ár og langaði að færa tónlistarkunnáttuna á næsta stig.“ Hann stundaði síðan klassískt tónlistarnám við Tónskóla Sigursveins D. Kristinssonar, lærði á fiðlu, píanó og kontrabassa og síðan tók við framhaldsnám í kontrabassaleik í Stokkhólmi og þar tók hann einnig tónlistarkennarapróf. Hann sneri heim árið 1990 og bjó í átta ár á Akureyri þar sem hann kynntist Finni Eydal og Helenu Eyjólfsdóttur. „Við Finnur vorum báðir kennarar við tónlistarskólann og fórum fljótlega að spila djass saman. Ég kom fyrst fram með þeim báðum á jólatrésskemmtun, Finnur spilaði á klarínett, Helena söng og ég spilaði á píanó. Ég hef verið svo heppinn að spila mikið með fólki sem ég hlustaði á á uppvaxtarárunum, eins og til dæmis Helenu og Ragga Bjarna og að ógleymdum Gunnari Þórðarsyni, en við Gunnar höfum leikið saman í tríóinu Guitar Islancio frá 1998.“

Að spila með goðunum

Blaðamaður spyr þá félaga hvort það hafi komið fyrir þá að verða feimnir eða frá sér numdir fyrir framan átrúnaðargoð sín. Jón segir það einu sinni hafa hent sig. „Þá var ég að spila með fleirum, þar á meðal Magga Kjartans, á jólatónleikum í Keflavíkurkirkju. Við hófum að spila Elskaðu náungann með Trúbrot og við fyrstu hljómana opnuðust kirkjudyrnar og inn gekk Rúnar Júlíusson og söng lagið. Ég stóð þarna uppnuminn og hugsaði með mér að ég væri að spila undir hjá goðinu mínu. Það var frábært augnablik.

Mér finnst ég alltaf vera að koma fram með hálfguðum,“ segir Karl. „Ég er þakklátur fyrir að hafa kynnst þeim sem komu á undan okkur í tónlistinni. Í menntaskóla spilaði ég með Mannakornum og ég var eins og kjáni í kringum þá. Gulli Briem spilaði á trommur og spurði félaga minn hvort þessi Kalli Olgeirs væri eitthvað skrýtinn. Ég var bara svona einkennilegur af því að ég var svo feiminn við þá! Ég spilaði einu sinni með Elly Vilhjálms. Það var í upphafi ferilsins og þá var ég tvítugur. Hún sagði mér að þetta væri í fyrsta sinn sem hún syngi við píanóundirleik, því hún væri alltaf með hljómsveit. Elly var frábær, mjög vingjarnleg, og söng eins og drottning.“

Karl er að leggja lokahönd á plötu með Karl Orgeltríó og Ragnari Bjarnasyni, Happy Hour með Ragga Bjarna, en þar leikur Karl á Hammond-orgel, Ólafur Hólm á trommur og Ásgeir Ásgeirsson á gítar. „Raggi syngur ýmis dægurlög í djassútsetningu, lög eftir Björk, Pink og Spandau Ballet, eitthvað sem fólk á kannski ekki von á frá Ragga. Að vinna með Ragga er eins og að vinna með Helenu, þar er tónlistarsagan holdi klædd.“

Vínylplata í bígerð

Þegar líður að hausti stefnir Hot Eskimos að því að gefa út vínylplötu með óútgefnu efni ásamt lögum af þeim tveim geisladiskum sem tríóið hefur sent frá sér og tónleikar verða haldnir í tilefni útgáfunnar. En af hverju tóku þeir vínylinn fram yfir geisladiskaútgáfu? „Ég hef aldrei hætt að hlusta á vínylplötur, á plötuspilara og hlusta nánast á hverjum degi. Mér finnst gaman að bregða plötu á fóninn,“ segir Karl. „Ég er sammála þessu,“ segir Jón. „Ég á ennþá fyrsta plötuspilarann sem ég eignaðist árið 1976 og hann er enn í toppstandi. Við ákváðum að gefa út vínylplötu vegna þess að það er viss hópur sem kaupir bara vínylplötur,“ segir hann.
„Hljómurinn er öðruvísi,“ segir Karl, „ekki endilega betri en öðruvísi, hlýrri segja sumir. Mér finnst notalegt hvað skammtastærðin er hæfileg, ein hlið er kannski 20 mínútur og svo ræður maður hvort maður snýr plötunni við eða ekki, meðan geisladiskurinn heldur áfram, kannski í klukkutíma.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

433Sport
Fyrir 4 klukkutímum

Gætu neyðst til að selja vonarstjörnuna í sumar vegna fjárhagsvandræða

Gætu neyðst til að selja vonarstjörnuna í sumar vegna fjárhagsvandræða
Fókus
Fyrir 5 klukkutímum

Íslensk hundanöfn hafa tekið miklum breytingum – Þetta hétu hundarnir á öldum áður

Íslensk hundanöfn hafa tekið miklum breytingum – Þetta hétu hundarnir á öldum áður
433Sport
Fyrir 6 klukkutímum

Klopp svartsýnn og biðst afsökunar

Klopp svartsýnn og biðst afsökunar
Fréttir
Fyrir 6 klukkutímum

Pétur Einarsson látinn

Pétur Einarsson látinn
433Sport
Fyrir 8 klukkutímum

Hvetur United til að horfa í óvænta átt: Harðhausinn aftur heim? – ,,Gæti smellpassað“

Hvetur United til að horfa í óvænta átt: Harðhausinn aftur heim? – ,,Gæti smellpassað“
433Sport
Fyrir 8 klukkutímum

Stórstjarnan plataði alla með nýrri mynd: Margir voru áhyggjufullir – Sjáðu svakalegan mun

Stórstjarnan plataði alla með nýrri mynd: Margir voru áhyggjufullir – Sjáðu svakalegan mun