

Sælkerakokkarnir og vinirnir Hinrik Örn Lárusson, Viktor Örn Andrésson og Sigurður Helgason gengu með þann draum í maganum í nokkur ár að opna veitingastað en þeir eru á meðal færustu matreiðslumanna landsins. Árið 2018 stofnuðu þeir Hinrik Örn og Viktor Örn veisluþjónustuna LUX veitingar og tveimur árum seinna Sælkerabúðina á Bitruhálsi í Reykjavík.
Eftir að hafa fundið draumastaðsetningu í hjarta Kópavogs létu þeir drauminn rætast og um miðjan nóvember opnar veitinga- og viðburðastaðurinn BRASA í Turninum á Smáratorgi í Kópavogi.
„Við erum að opna í hjarta Kópavogs. Hinrik og Viktor sáu tækifæri að stækka við starfsemina en þeir hafa rekið veisluþjónustuna Lúx Veitingar og Sælkerabúðina í nokkur ár, sem sérhæfir sig í að mæta á staðinn með veitingarnar en á Brasa munu gestir mæta í ljúffengar máltíðir til okkar og það er eitthvað sem þeir hafa talað um að gera í mörg ár“, segir Kristín Samúelsdóttir, markaðs-, sölu- og viðburðastjóri.

Staðurinn er á 2. hæð og þegar gengið er inn tekur á móti gestum fallegt anddyri, en staðurinn sem fengið hefur nafnið Brasa, verður opinn frá morgni til kvölds.
„Brasa Delí mun opna snemma á morgnana og bjóða upp á gómsæt bakkelsi og kaffi ásamt kjötvörum og Brasa kjúkling, sem verður okkar sérstaða og einkennisréttur ásamt alls konar öðru góðgæti frá Sælkerabúðinni. Í hádeginu verður hlaðborð í boði og á kvöldin verður gómsætur kvöldverðarseðill.
Innblásturinn að matnum kemur úr suðuramerískri og asískri matargerð en staðurinn býður fjölbreytta upplifun – frá klassískum hádegisréttum til spennandi kvöldseðils, kokteila, jólahlaðborðs og viðburða.“

Á Brasa verður eldað á grillspíra í kolaofni og segir Kristín að þeim vitandi sé enginn á Íslandi með slíkt grill.
„Þar munum við elda Brasa kjúklinginn, okkar einkennisrétt. Hann verður einnig fáanlegur í Brasa-Delí, þannig að það er hægt að grípa kvöldmatinn með heim og verður mjög skemmtilegt að geta boðið upp á það.“
Yfirkokkar á Brasa verða Birkir Freyr Guðbrandsson og Viktor Örn Andrésson. Yfirþjónn er Kristján Nói Sæmundsson og Aðalheiður Reynisdóttir bakarameistari mun sjá um bakarí og desserta.

Birkir hóf feril sinn á Kjallaranum, lærði undir handleiðslu Bjarna Gunnars í Hörpu og starfaði meðal annars á Marshall Restaurant, La Primavera og Brút, þar sem hann var yfirkokkur síðustu ár. Hann er þekktur fyrir ástríðu sína fyrir matargerð og vínum og mun nú leiða eldhúsið og móta bragðheima BRASA, þar sem suðuramerískur og asískur innblástur mætast.

Aðalheiður er meðal fremstu bakara landsins og hefur aflað sér víðtækrar reynslu bæði hér heima og erlendis. Hún lærði pastry við Le Cordon Bleu í London og hefur starfað á virtum stöðum á borð við Pollen Street Social, Moss Restaurant í Bláa lóninu og Michelin-staðinn Kong Hans Kælder í Kaupmannahöfn. Hjá Brasa mun Aðalheiður þróa og skapa brauð, vínarbrauð og eftirrétti með sinni einstöku fagmennsku og sköpunargleði, þar sem jafnvægi milli útlits og bragðs er í forgrunni.

Kristján Nói, yfirþjónn Brasa hefur yfir 30 ára reynslu úr veitingageiranum og kemur hann til Brasa með mikla þekkingu og ástríðu fyrir þjónustu. Hann hefur starfað á mörgum af fremstu veitingastöðum landsins og mun leiða teymið sem sér um að skapa einstaka upplifun fyrir gesti Brasa.

Brasa mun opna miðjan nóvember og þegar er byrjað að bóka í jólahlaðborð og jólabröns, sem hefjast 14. nóvember og eru nú þegar einstakar dagsetningar að verða fullbókaðar
„Við höfum fengið mjög góðar undirtektir og erum komin með mikið af bókunum, en ennþá eru laus borð, sem bóka má í gegnum Dineout. Við erum einnig byrjuð að taka á móti almennum borðabókunum í kvöldverð sem við hefjum 26. nóvember.“

Framkvæmdir eru nú í fullum gangi en staðurinn er hannaður af HAF Studio, Arkís Arkitektar og Tp bennet og er með glæsilega umgjörð sem sameinar lúxus, hlýju og fegurð.
,,Þetta verður hinn glæsilegasti staður – elegant, fágaður og um leið jarðbundinn og hlýlegur. Á næstu vikum verður komin skýrari mynd af staðnum og við leyfum öllum að fylgjast með framkvæmdunum á Instagram-síðunni okkar. Á Brasa Bar verður kampavíni gert hátt undir höfði ásamt spennandi kokteilum frá kokteilmeistara staðarins, Raúl. Þar má einnig finna sérsmíðað vínherbergi þar sem Kristján Nói hefur sett saman glæsilegan vínseðil sem allir ættu að finna eitthvað við sitt hæfi. Mikil áhersla verður lögð á fallega framsetningu og upplifun á barnum – og innst við barinn verður meðal annars glæsilegur kampavínskælir á gólfinu,“ segir Kristín.



Brasa verður ekki aðeins veitingastaður, heldur einnig viðburðastaður.
„Brasa býður upp á fjölmarga möguleika – hér geta gestir haldið eigin viðburði, allt frá fundum og afmælum til stærri samkoma og veislna. Jafnframt munum við sjálf bjóða reglulega upp á fjölbreytta og skemmtilega viðburði fyrir gesti okkar yfir árið. Við getum tekið á móti hópum af öllum stærðum og stúkað af sali eftir þörfum, en Brasa býður sæti fyrir allt að 250 manns og fleiri standandi“, segir Kristín.
„Jólasveinarnir koma svo til byggða 30. nóvember og munu kíkja reglulega við á Brasa alla sunnudaga milli kl. 12 og 13 í aðdraganda jóla til að heilsa upp á börnin og skapa hátíðarstemningu á jólabrönsinum. „Það verður virkilega skemmtilegt,“ segir Kristín og bætir við að frítt sé fyrir yngstu gestina á jólabröns. Auk þess verður sérstakur barnamatseðill í boði fyrir börnin.“

Brasa mun opna í nóvember með glæsilegu jólahlaðborði og jólaseðli. Lifandi tónlist verður á staðnum frá kl. 18–20 sem skapar notalega hátíðarstemningu í húsinu. Borðapantanir fyrir jólahlaðborð og jólabröns fara fram í gegnum Dineout.is.
„Við hlökkum til að opna dyrnar um miðjan nóvember og taka á móti gestum. BRASA verður miðpunktur fyrir mat, drykki og skemmtilegar stundir – staður þar sem fólk getur notið hvort sem er í kaffibolla yfir daginn, í létta stemningu á barnum eða fimm rétta kvöldverð. Við hvetjum alla til að fylgjast með undirbúningnum á Instagram síðu okkar og á heimasíðunni fyrir opnun.“
