Hin vinsæla hjólreiðakeppni WOW Tour of Reykjavík hefst undir lok föstudags. Skráning stendur fram á keppnisdag en eftir miðnætti á fimmtudagskvöld hækkar skráningargjaldið um 20%. Keppnin er nú haldin í þriðja sinn en tilgangur hennar er tvíþættur: Annars vegar að almenningur taki virkari þátt í hjólreiðaviðburðum en hins vegar að efla hjólreiðar á afreksstigi hér á landi.
Keppnin hefst á föstudag kl. 18 í Lækjargötu þegar ræst verður í 125 km keppnina sem liggur eftir Mosfellsheiði til Þingvalla, hringur eftir Uxahryggjaveg og um Grafning og Nesjavelli til baka. Á laugardaginn eru hjólaðir fjórir 12,5 km hringir um miðborgina og eftir Sæbrautinni, konur kl. 16:00 og karlar kl. 18:00.
Skráning, kort og nánari lýsingar á hjólaleiðum er að finna á www.tourofreykjavik.is
Ung keppni í örri þróun
Leifur Geir Hafsteinsson er í mótstjórn og tekur sjálfur þátt í keppninni. „Keppnin í ár er aðeins sú þriðja í röðinni, þannig að það má segja að Tour of Reykjavík sé aðeins barn að aldri. Enda er hún í örri þróun og mikil vinna lögð í það frá ári til árs að styrkja og efla umgjörð keppninnar með virku samtali við hjólreiðafólk. Það er ekki sjálfgefið að lagt sé svo mikið púður í hjólreiðaviðburð fyrir almenning og mér finnst næstum vera skylda okkar hjólreiðaáhugamanna að styðja við viðburðinn með þátttöku og/eða sjálfboðaliðastarfi þannig að hann vaxi og dafni,“ segir Leifur.
Eitt af höfuðmarkmiðum keppninnar er að höfða til sem flestra og nú verður í fyrsta sinn boðið upp á skemmtilegan 2 km fjölskylduhring í kringum Tjörnina þar sem sápukúlur, reykur og tónlist munu skapa skemmtilega umgjörð fyrir 5-12 ára börn og foreldra eða ömmur og afa.
„Almenningshjólarar geta valið um að hjóla 50 km eða 125 km og þeir duglegustu í B-flokki geta nú í fyrsta sinn tekist á við báðar dagleiðirnar. Í 125 km dagleið B-flokks mega þátttakendur nýta sér kjölsog keppenda af hinu kyninu enda snýst andi B-flokksins meira um samvinnu en samkeppni. Í 50 km keppninni var aftur á móti ákveðið að halda kynjunum aðskildum til að minnka framúrkeyrslur, auka öryggi og veita báðum kynjum meira svigrúm til að hjóla á sínum forsendum. Atvinnumenn og harðir keppnishjólarar skrá sig svo í A-flokkinn, sem hjólar báðar dagleiðir á miklum hraða með það að markmiði að lágmarka samanlagðan heildartíma beggja dagleiða,“ segir Leifur.
Þung áhersla á öryggi keppenda
„Við leggjum þunga áherslu á að gera Tour of Reykjavík sem öruggasta og grípum til fjölmargra ráðstafana til að lágmarka líkur á slysum. Í 125 km keppninni fær hópurinn lögreglufylgd út úr borginni, fimm lögreglumenn á mótorhjólum fylgja keppendum og sjá til þess að stöðva umferð frá enda Nesjavallarafleggjarans og í endamark í Víðidal. Undanfari og dómarabílar fylgja fremsta hópi alla leið auk annarrar gæslu í brautinni. Nesjavallarvegur verður lokaður allri umferð meðan á keppninni stendur og umferð um Uxahryggjaveg takmörkuð. Ferðaþjónustu- og rútufyrirtæki hafa verið rækilega upplýst um keppnina og beðin að taka tillit til keppenda á leiðinni.
Í 50 km keppninni verður keppt á alveg lokaðri 12,5 km braut, auk þess sem karlar og konur verða ekki í brautinni á sama tíma. Sú leið býður upp á frábært tækifæri fyrir óvanari hjólara að æfa sig í að hjóla í hópi við öruggar aðstæður.“
Leifur segir að erfitt sé að spá með nákvæmni fyrir um fjölda keppenda í ár en búast má við að þeir verði mörg hundruð: „Nú þegar er orðið ljóst að á annað hundrað keppendur munu hjóla krefjandi 125 km leið og við eigum von á talsvert fleiri í 50 km keppnina. Tveggja dag keppnin er t.d. fullkominn undirbúningur fyrir lið sem ætla að taka þátt í WOW Cyclothon og svo vonum við að fjölskyldur fjölmenni í skemmtihringinn og setji svip sinn á laugardagseftirmiðdaginn í miðborginni.“
Sumarhátíð íslensk hljóðreiðaáhugafólks
Leifur segir að jákvæður og uppbyggilegur andi einkenni Tour of Reykjavik og gaman sé að leyfa börnum að drekka í sig þessa stemningu frá unga aldri:
„Sýn okkar er sú að Tour of Reykjavík muni fljótt og örugglega þróast yfir í sumarhátíð íslensks hjólreiðaáhugafólks. Fjölskyldur rúlla saman niður í miðbæ til þess að fá sér kaffibolla og fylgjast með spennandi keppni, eða hvetja mömmu þegar hún tætir í sig 50 km brautina, nú eða til að hjóla saman nokkrar ferðir um skemmtihringinn og fá í verðlaun frítt á skauta.
Svo er gaman að segja frá því að fyrirtækjum býðst nú í fyrsta sinn að taka þátt í viðburðinum með því að niðurgreiða helming þátttökugjalds sinna starfsmanna og fá í staðinn auglýsingar í brautinni. Við vonumst til að þetta skapi stemmningu á vinnustöðum og lífgi upp á keppnisbrautina.“