fbpx
Sunnudagur 05.apríl 2020

Skotárásin á California-stræti 101

Ritstjórn DV
Sunnudaginn 13. janúar 2019 22:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Ekki er óalgengt að fólk sé óánægt með frammistöðu lögfræðinga sinna enda nánast sjálfgefið að einhver sitji uppi með svartapétur þegar málalyktir liggja fyrir.

Sú var raunin hjá kaupsýslumanninum Gian Luigi Ferri, þá 55 ára, sem ákvað að gera lýðum ljós vonbrigði hans með þá þjónustu sem hann fékk hjá lögmannastofunni Pettit & Martin við California-stræti 101 í San Francisco.

    Óánægður skjólstæðingur

Það var þann 1. júlí, 1993, sem Ferri fékk sig loks fullsaddan af viðskiptum sínum við lögmannastofuna. Þá hafði Ferri verið skjólstæðingur Pettit & Martin í að minnsta kosti tíu ár og hafði að sögn alið á gríðarlegri óbeit í garð stofunnar í mörg ár. Óbeitin var meðal annars tilkomin vegna ráðgjafar sem hafði nokkrum árum áður orðið Ferri dýrkeypt og höggvið verulegt skarð í fjárhag hans.

Gian Luigi Ferri
Hafði alið á óbeit í garð lögmannastofunnar Pettit & Martin í mörg ár.

Vel undirbúinn

Rétt fyrir klukkan þrjú síðdegis þennan dag fór hann inn í lyftu á jarðhæð byggingarinnar við California-stræti 101, þar sem Pettit & Martin var til húsa, til að undirstrika óánægju sína með þeim hætti að tekið yrði eftir.

Ferri fór úr lyftunni á 34. hæð. Hann var greinilega vel undirbúinn því hann hafði heyrnarskjól á höfðinu og var vopnaður tveimur TEC-9 skammbyssum og .45 kalíbera skammbyssu að auki.

Fyrstu fórnarlömbin

Hann ráfaði um stund á þeirri hæð og fann sín fyrstu fórnarlömb í fundarherbergi sem Pettit & Martin leigði stundum út. Fjögur voru í fundarherberginu; Jack Berman og Jody Jones Sposato, en Sposato var þar stödd til að fá skráða málshöfðun sína, vegna kynbundinnar mismununar, á hendur fyrrverandi vinnuveitana sínum. Þarna voru einnig Deanna Eaves hraðritari og lögfræðingurinn Sharon O’Roke sem tók niður vitnisburð Sposato. Ekkert þeirra tengdist lögmannastofu Pettit & Martin.

Tvö skotin til bana

Ferri skaut í gegnum glervegg fundarherbergisins með þeim afleiðingum að Berman og Sposato létust samstundis. Eaves leitaði skjóls undir borðinu og fékk skot í handlegginn, en O’Roke reyndi að forða sér á hlaupum og var skotin fimm sinnum. Báðar sluppu með líftóruna.

California-stræti 101
Ferri hófst handa á 34. hæð byggingarinnar.

Að þessu loknu fór hann á næstu hæð fyrir neðan og notaði til þess stigana í stað lyftunnar. Þar á ganginum gekk hann í flasið á hjónunum John C. og Michelle Scully.

Fórnaði sér fyrir eiginkonu sína

John, sem vann hjá Pettit & Martin, hafði heyrt skothríðina og hlaupið niður á 33. hæð þar sem hann vissi að eiginkona hans, sem vann hjá annarri lögmannastofu, var.

Umfjöllun
Málinu voru gerð góð skil í fjölmiðlum á sínum tíma.

Þau hugðust komast undan með því að nota lyftuna en Ferri stöðvaði för þeirra. Síðar sagði Michelle að þegar Ferri miðaði skammbyssunni á þau hafi eiginmaður hennar stigið fram fyrir hana og í veg fyrir kúluna. John lést af sárum sínum, en Michelle fékk skot í handlegginn og lifði af.

Sumarstarfsmaður veginn

Á sömu hæð var staddur fyrir tilviljun laganemi frá Colorado-háskóla, David Sutcliffe. David var sumarstarfsmaður Pettit & Martin og hafði skotist á 33. hæð til að spjalla við og leita ráða þar hjá reyndum lögmanni, Charles Ross.

Ferri skaut David Sutcliffe til bana skömmu eftir að hann yfirgaf skrifstofu Ross. Síðan reyndi Ferri að ryðjast inn til Ross sem tókst að skella hurðinni á hann. Ferri gafst ekki upp og Ross skaust fram hjá honum og hljóp niður eftir ganginum. Hann slapp með skrekkinn, en fékk þó skot í handlegginn.

Sjálfsvíg í lokin

Ferri myrti átta manns á fjórum mínútum og sem sluppu mismikið særðir frá hildarleiknum. Auk þeirra sem nefndir hafa verið hér að framan þá féllu fyrir kúlum hans Allen J. Berk, hjá Pettit & Martin, Deborah Fogel, ritari hjá annarri lögmannastofu, Donald Michael Merrill, sem vann hjá fjárvörslufyrirtæki, og Shirley Mooser, sem vann hjá sama fyrirtæki og Merrill.

Bréfið
Í því taldi Ferri upp margt sem honum var á móti skapi.

Þegar Ferri sýndist nóg komið, og lögreglan nálgaðist óðfluga, svipti hann sig lífi. Aldrei varð almennilega ljóst hvað sérstaklega varð til þess að Ferri gekk berserksgang, en í bréfi sem hann skildi eftir sig mátti lesa um margt sem hann var óánægður með í viðskiptum hans og lögmannastofunnar.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Fréttir
Fyrir 7 klukkutímum

Enn vantar hjúkrunarfræðinga á Vestfirði

Enn vantar hjúkrunarfræðinga á Vestfirði
Fréttir
Fyrir 7 klukkutímum

Þórólfur ánægður: „Við erum undir bestu kúrvu sem er bara mjög ánægjulegt“

Þórólfur ánægður: „Við erum undir bestu kúrvu sem er bara mjög ánægjulegt“
Eyjan
Fyrir 9 klukkutímum

Segir nýtt frumvarp um jarðakaup dapurlegt – „Milljarðamæringurinn Ratcliffe gæti fengið leyfi til að safna fleiri jörðum“

Segir nýtt frumvarp um jarðakaup dapurlegt – „Milljarðamæringurinn Ratcliffe gæti fengið leyfi til að safna fleiri jörðum“
Pressan
Fyrir 10 klukkutímum

Fljúgandi furðuhlutir yfir Washington

Fljúgandi furðuhlutir yfir Washington
433Sport
Fyrir 14 klukkutímum

Frúin bjargar Ronaldo á meðan allt er lokað

Frúin bjargar Ronaldo á meðan allt er lokað
Fókus
Í gær

Íslendingar missa sig yfir Tígrisdýra kónginum

Íslendingar missa sig yfir Tígrisdýra kónginum
Fókus
Í gær

Sóttkvíar útgáfa af Eurovision-laginu sem aldrei fékk að keppa

Sóttkvíar útgáfa af Eurovision-laginu sem aldrei fékk að keppa
Fókus
Í gær

Edda Björgvins í sjálfboðavinnu á Hellu – „Hér er mér tekið af kærleika en tæplega treyst“

Edda Björgvins í sjálfboðavinnu á Hellu – „Hér er mér tekið af kærleika en tæplega treyst“