fbpx
Laugardagur 27.apríl 2024

Ameríski draumurinn í Amazon: Sagan ótrúlega um Henry Ford og eyðibæinn Fordlandia

Verkamenn fengu hamborgara – Máttu ekki spila fótbolta – Ævintýrið fór út um þúfur

Einar Þór Sigurðsson
Sunnudaginn 24. september 2017 22:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Henry Ford, stofnandi bílaframleiðandans Ford Motor Company, var mikill draumóramaður. Eins og margir eflaust vita er Ford einn af upphafsmönnum bílsins enda var fyrirtæki hans eitt það fyrsta í heiminum til að nota færibandavinnslu við fjöldaframleiðslu bíla.

Það sem færri vita hins vegar er sagan ótrúlega á bak við bæinn Fordlandia í Pará-héraði í Brasilíu. Pará-hérað er afskekkt hérað í norðurhluta Brasilíu og þekur Amazon-regnskógurinn nokkuð stóran hluta héraðsins. Bærinn var reistur árið 1928 og var hugmyndin sú að þarna færi fram vinnsla á gúmmíi sem aftur átti að nota í hjólbarða sem Ford Motor Company framleiddi.

Mynd: Tom Flanagan

Vildi bækistöð

Henry Ford var hugmyndasmiðurinn á bak við bæinn og taldi hann að það myndi þjóna hagsmunum fyrirtækisins vel til lengri tíma að hafa bækistöð á svæðinu. Svo fór að Ford samdi við brasilísk yfirvöld sem heimiluðu honum afnot af gríðarstóru landi skammt frá bökkum Tapajós-árinnar. Notkunin af landinu var endurgjaldslaus en brasilísk yfirvöld sömdu á þann veg að þau fengju hlutdeild í þeim hagnaði sem Ford myndi fá vegna framleiðslunnar. Henry Ford var býsna sáttur við þetta tilboð. Á þessum árum, á fyrri hluta 20. aldarinnar, stýrðu hollenskir og breskir gúmmíbarónar markaðnum með þetta mikilvæga hráefni. Taldi Ford að með því að hefja framleiðslu sjálfur myndi hann bæði spara fjármagn og skjóta gróðapésunum ref fyrir rass.

Mynd: Tom Flanagan

Ýmis vandamál

Árið 1928 var hafist handa við að reisa bæinn en ekki gekk allt að óskum. Nokkuð greiðlega gekk að fá starfsfólk til að flytja til Fordlandia og þegar mest lét bjuggu um tíu þúsund manns í bænum. Það var hins vegar meiri vandkvæðum bundið að vinna gúmmí úr trjákvoðu gúmmítrjánna, Hevea brasiliensis. Trén áttu það til að visna og plágur herjuðu á þau og erfiðlega gekk að vinna nothæft gúmmí úr trjánum. Þá voru samgöngur á svæðinu ekki upp á marga fiska; engir vegir og eina leiðin til að komast til Fordlandia um tíma var með bátum eða skipum.

Mynd: Wikipedia

Amerískar reglur

Vandamálin voru þó miklu, miklu fleiri. Henry Ford þótti um margt sérvitur og hann setti verkamönnum sínum, sem nær allir voru innfæddir Brasilíumenn, skýrar reglur. Bærinn var amerískur og reglurnar voru amerískar. Áfengi, tóbak og konur voru bannaðar og brasilísku iðnaðarmennirnir máttu ekki einu sinni spila fótbolta. Sérstakir eftirlitsmenn fylgdust með öllu sem fram fór og fóru í skoðunarferðir um húsakynni verkamannanna til að tryggja að allt væri samkvæmt settum reglum. Þá fengu verkamennirnir mat sem þeir áttu ekki að venjast; hamborgara og dósamat til dæmis. Þá voru þeir látnir vinna yfir heitasta tíma dagsins, eitthvað sem þeir áttu ekki að venjast. Flestir voru verkamennirnir ósáttir við þær aðstæður sem þeir bjuggu við og árið 1930 gerðu þeir uppreisn í kaffiteríunni í Fordlandia. Uppreisnin stóð yfir í nokkra daga og endaði hún ekki fyrr en brasilíski herinn var fenginn til að stilla til friðar. Í kjölfarið bötnuðu aðstæður verkafólksins nokkuð, þar á meðal maturinn.

Mynd: Tom Flanagan

Mikið tap

Öll þessi vandamál urðu samt til þess að Ford blés framleiðsluna í Fordlandia af árið 1934, sex árum eftir að framkvæmdir hófust, og eftir stóð þessi tíu þúsund manna bær. Framleiðslan var færð til Belterra sem er 40 kílómetra suður af borginni Santarém og þar gekk framleiðslan betur. Ekki liðu þó mörg ár þar til farið var að framleiða gúmmí úr gerviefnum og því svaraði það ekki kostnaði lengur að hafa halda úti útibúum á svæðum eins og í Amazon-skóginum. Þegar allt kom til alls tapaði Ford um 20 milljónum Bandaríkjadala, um 200 milljónum dala á núverandi gengi, á verkefnunum tveimur í Brasilíu. Henry Ford heimsótti aldrei Fordlandia og það var kannski eins gott.

Mynd: Wikipedia

Íbúum fjölgaði upp úr aldamótum

Þó að engin föst starfsemi hafi farið fram í Fordlandia frá því að Ford Company hætti við framleiðslu sinni á gúmmíi bjó nokkur fjöldi fólks í bænum. Íbúum fækkaði þó mikið upp úr 1940 og allt fram til aldamóta bjuggu ekki fleiri en 90 til 100 manns í Fordlandia hverju sinni. Langt var í næsta þéttbýlisstað og þá var það erfiðleikum bundið að komast á svæðið. Á undanförnum árum hefur íbúum þó fjölgað og er það ekki síst betri samgöngum að þakka. Talið er að í dag séu íbúar á svæðinu um tvö þúsund talsins. Flestar þeirra bygginga sem reistar voru á tímum Ford-ævintýrisins standa enn. Í raun má segja að þarna standi enn þessi ameríski bær í miðjum Amazon-skóginum þó margt hafi vitanlega breyst. Nokkur fjöldi ferðamanna heimsækir Fordlandia á hverju ári en þangað er til dæmis hægt að komast með bát frá borginni Santarem. Bátsferðin tekur um sex klukkustundir.

Heimildir:

Wikipedia

How Stuff Works

Messy Nessy

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 8 klukkutímum

Heiðar tjáir sig um Kveiksmálið og segir engin annarleg sjónarmið búa að baki ákvörðuninni

Heiðar tjáir sig um Kveiksmálið og segir engin annarleg sjónarmið búa að baki ákvörðuninni
433Sport
Fyrir 9 klukkutímum

Sjáðu myndbandið umtalaða – Klopp og Salah rifust á hliðarlínunni

Sjáðu myndbandið umtalaða – Klopp og Salah rifust á hliðarlínunni
433Sport
Fyrir 10 klukkutímum

„Galið“ ef hún verður áfram á Íslandi

„Galið“ ef hún verður áfram á Íslandi
433Sport
Fyrir 10 klukkutímum

Borga metfé fyrir frænda Maradona – Tvöfalda félagsmetið

Borga metfé fyrir frænda Maradona – Tvöfalda félagsmetið