fbpx
Þriðjudagur 21.maí 2024
Fréttir

Fluttu til Íslands en entust bara í eitt ár: Þetta eru ástæður þess að þau gátu ekki meir

Ritstjórn DV
Mánudaginn 8. janúar 2024 13:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Þegar hin breska Annabel Fanwick Elliott kom til Íslands sem túristi árið 2018 hugsaði hún með sér að hér gæti hún búið. Og þegar hún og unnusti hennar fengu tækifæri til að flytja til Íslands fjórum árum síðar ákváðu þau að slá til enda hafði unnustinn fengið spennandi starf sem þyrluflugmaður hér á landi.

Annabel er pistlahöfundur hjá breska blaðinu Telegraph og skrifar hún um reynslu sína af því að búa á Íslandi í pistli sem birtist á vefnum í morgun.

Skilur ekki hvernig Íslendingar eru svona hamingjusamir

Í grein sinni bendir hún á að Ísland hafi verið spennandi áfangastaður í hennar huga. Ísland sé vissulega fallegt land en það hafi einnig skipt máli að Íslendingar eru ein hamingjusamasta þjóð í heimi, samkvæmt The World Happiness Report. Það sé í raun bara betra að búa í Finnlandi og í Danmörku samkvæmt þeim stöðlum sem lagðir eru til grundvallar í þeirri skýrslu.

„En, kæru lesendur, við fluttum þangað í ágúst 2022 og entumst í nákvæmlega eitt ár,“ segir hún.

„Ísland er eitt af mínum uppáhaldslöndum til að heimsækja en ég fæ ekki skilið hvernig íbúarnir eru svona hamingjusamir,“ segir hún.

Hátt verð á matvælum

Hún segir að aðstæður hennar og unnustans hafi ekki hjálpað. Þau hafi flutt til Íslands 14 dögum eftir að þau eignuðust barn eftir keisaraskurð. Þó að Ísland sé ekki í Evrópusambandinu hafi Brexit-málið gert öll mál flóknari fyrir hana. „Á sama tíma og þýskum unnusta mínum var tekið opnum örmum gat ég ekki einu sinni fengið bankareikning, hvað þá heilbrigðisþjónustu og ég var stöðugt að ferðast til Bretlands ein með barnið.“

Í grein sinni nefnir hún að Ísland úr lofti sé gríðarlega fallegt land. „En út frá praktískum sjónarmiðum þá er ekki stór hluti þess aðgengilegur. Meira en helmingur íbúa býr á höfuðborgarsvæðinu og það vex ekki mikið þar. Maturinn sem kemur frá Íslandi er vafasamur (súr hákarl einhver?) á meðan innflutt matvæli fást á ertu-ekki-að-grínast-í-mér verði.“

Þá bendir Annabel á að íslenska hagkerfið sé svo sérstakt að hér eru ekki einu sinni útibú frá McDonalds eða Starbucks og þá sé Amazon ekki með starfsemi hér á landi. Hún nefnir einnig gríðarlega hátt áfengisverð, um þrisvar sinnum hærra en í Bretlandi, og lélegt aðgengi að því þar að auki. Aðeins sé hægt að kaupa áfengi í þar til gerðum vínbúðum með takmarkaðan opnunartíma. Þetta hafi komið þeim í koll um jólin þegar verslanir Vínbúðarinnar voru lokaðar dögum saman.

Gjafir til sonarins skattlagðar

Hún gagnrýnir fleiri atriði á Íslandi og segir að regluverkið sé þungt og dálítið sérstakt jafnvel. Bjór hafi verið bannaður á Íslandi lengi vel og sjónvarp bannað á fimmtudögum. Í dag séu strangar reglur varðandi innflutning á vörum. „Pakkar sem móðir mín sendi mér voru reglulega opnaðir og innihald þeirra skattlagt,“ segir hún og nefnir til dæmis náttföt sem barnið hennar fékk í afmælisgjöf.

Ísland er þó langt því frá alsæmt eins og Annabel kemur inn á í grein sinni. Hún segir að hátt verðlag haldi túristum í skefjum, enska sé töluð víða og Íslendingar hafi dásamlegan svartan húmor. Þá sé kranavatnið einstakt og sundlaugarnar og náttúrulaugarnar æðislegar. „Norðurljósin lýsa upp himininn yfir veturinn og svo er Ísland einn fárra staða í heiminum þar sem ekki eru moskítóflugur.“

Veðrið gerði útslagið

Hún segir að þegar öllu var á botninn hvolft hafi veðrið gert útslagið. Veturinn sem þau dvöldu hér var kaldur og snjóþungur og myrkrið nánast allsráðandi allan sólarhringinn. En sumarið var ekkert mikið betra og segir hún að birtan, jafnvel um hánætur, hafi valdið henni svefnleysi. Þó að bjart hafi verið allan sólarhringinn yfir sumarið hafi samt eiginlega verið of kalt til að njóta þess að vera úti.

„Þetta gæti verið ástæðan fyrir því að Íslendingar eru svona hamingjusamir og af hverju Norðurlandaþjóðirnar raða sér gjarnan í efstu sætin á þessum hamingjulistum. Þú verður að vera býsna harðgerður til að þola þessar aðstæður. Í fyrsta sinn sem við hittum nágranna okkar, hana Eygló, var hún að djöflast úti í snjóstormi á stuttermabol og sandölum með glott í andlitinu. Hún var ekki einu sinni drukkin – það var sunnudagur. En til að draga þetta saman þá ættu allir að heimsækja þetta ævintýraland áður en þeir deyja. En afar fáir gætu sest þar að til æviloka.“

Grein Annabel má lesa í heild sinni á vef Telegraph en í henni telur hún einnig upp fimm hluti sem allir verða að gera ef þeir heimsækja Ísland.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Sjáðu nýjustu treyju Víkings sem fær góð viðbrögð – ,,Óður til samfélagsins í 108″

Sjáðu nýjustu treyju Víkings sem fær góð viðbrögð – ,,Óður til samfélagsins í 108″
Fréttir
Í gær

Blaðamannafélagið og SA undirrita kjarasamninga

Blaðamannafélagið og SA undirrita kjarasamninga
Fréttir
Fyrir 4 dögum

Vilja reisa vonarvita fyrir Grindavík – Upplýsta Grindavíkur geit

Vilja reisa vonarvita fyrir Grindavík – Upplýsta Grindavíkur geit
Fréttir
Fyrir 4 dögum

Sagði yfirmanninn hafa komið illa fram við sig og mismunað sér en var ekki nógu skýr

Sagði yfirmanninn hafa komið illa fram við sig og mismunað sér en var ekki nógu skýr