Morgunblaðið skýrir frá þessu og segir að um margar tegundir matvæla hafi verið að ræða, allt frá sósum og öðrum kælivörum til þurrvöru og kjöts.
Framkvæmdastjóri heilbrigðiseftirlitsins og deildarstjóri sögðu í samtali við Morgunblaðið að málið sé fordæmalaust og einstakt.
Aðgerðin átti sér stað í síðustu viku og nú stendur rannsókn málsins yfir. Komu tíu heilbrigðisfulltrúar að henni.
Búið er að farga matvælunum en ljóst er að þau voru ekki hæf til neyslu.
Óskar Ísfeld Sigurðsson, deildarstjóri hjá heilbrigðiseftirlitinu, sagðist ekki vita hvað eigandinn hafi ætlað að gera við matvælin en magnið bendi til að hann hafi ekki ætlað að neyta þeirra sjálfur.