Suður-kóresk stjórnvöld hafa ákveðið að hefja útsendingar á pólitískum skilaboðum sem beint verður til þegna Norður-Kóreu í gegnum öfluga hátalara. Aðgerðin er mótleikur við blöðrum, fullum af rusli, sem Norður-Kórea hefur látið svífa yfir til landamærin til nágranna sinna í suðri. Sex ár eru síðan að Suður-Kórea kom skilaboðum með sambærilegum hætti til Norður-Kóreubúa en þarlend stjórnvöld líta á áróðurinn sem stríðsaðgerð og hafa áður hótað að gera loftárásir á hátalarana.
Um þrjú hundruð ruslblöðrur voru sendar frá Norður-Kóreu um helgina en um áttatíu þeirra náðu yfir landamærin til Suður-Kóreu. Stjórnvöld í Norðrinu hófu að senda ruslblöðrunar á loft eftir að aktívistar í Suður-Kóreu fóru að senda slíkar blöðrur sem innihéldu meðal annars bréf þar sem Kim Jong-Un, leiðtogi Norður-Kóreu, var gagnrýndur sem og dollaraseðla og minnislykla sem innihéldu suður-kóreska popptónlist sem er stranglega bönnuð hjá nágrönnunum.
Nágrannaþjóðirnar, sem hafa tæknilega verið í stríði síðan 1950, hafa eldað grátt silfur í gegnum árin. Stjórnvöld í Suður-Kóreu innleiddu þó lög í landinu árið 2020 sem gerði það refsivert að senda áróður yfir til nágrannanna. Aktívistar hafa þó ekki látið sér segjast og bent á að lögin samræmist illa stjórnarskrárbundnum réttindum um tjáningarfrelsi. Hafa því sendingarnar haldið áfram sem nú hefur leitt til hátalara- og sorpblöðruátaka.