

Ragnar Þór Ingólfsson, þingflokksformaður Flokks fólksins, verður félags- og húsnæðismálaráðherra og Inga Sæland, formaður, fer í mennta- og barnamálaráðuneytið.
Frá þessu greinir Inga Sæland á samfélagsmiðlum í kvöld. Guðmundur Ingi hættir vegna veikinda en snýr aftur á Alþingi þegar veikindaleyfi hans lýkur.
„Minn góði vinur og baráttujaxl Guðmundur Ingi Kristinsson hefur nú sagt af sér embætti mennta- og barnamálaráðherra af heilsufarsástæðum. Hann gekkst undir stóra opna hjartaaðgerð seint í desember og þarf tíma til að jafna sig og ná fullum kröftum,“ segir Inga í færslu.
Tilkynningin kemur ekki alveg á óvart. Inga var búin að tilkynna það fyrir nokkrum dögum að breytinga væri að vænta á ráðherraliði flokksins.