

Ragnheiður Svava Þórólfsdóttir birtir opið bréf til Fangelsismálastofnunar á Vísir.is þar sem hún gagnrýnir einangrunarvist Anítu Óskar Haraldsdóttur, sem hefur setið í gæsluvarðhaldi á Hólmsheiði síðan í byrjun september, þar af meirihlutann í einangrun. Aníta hefur verið ákærð fyrir brot gegn valdstjórninni, brot gegn vopnalögum og eignaspjöll.
Móðir Anítu hefur barist fyrir því að hún fái viðeigandi geðheilbrigðisþjónustu en geðmat yfir henni hefur dregist. Vill móðirin að Aníta leggist inn á geðdeild.
Ragnheiður skrifar á Vísi:
„Ég tel þetta vera alvarlegt brot á mannréttindum og í andstöðu við bæði íslensk lög og alþjóðlegar skuldbindingar Íslands. Þar ber sérstaklega að nefna Nelson Mandela-reglur Sameinuðu þjóðanna (United Nations Standard Minimum Rules for the Treatment of Prisoners), sem Ísland hefur skuldbundið sig til að virða.
Samkvæmt reglu 44 telst einangrun sem varir lengur en 15 daga langvarandi einangrun. Samkvæmt reglu 43 er slík meðferð skilgreind sem grimm, ómannúðleg eða vanvirðandi meðferð og er með öllu bönnuð. Reglur 45 kveða jafnframt skýrt á um að einangrun megi einungis beita sem síðasta úrræði, í sem stystan tíma, með skýrum rökstuðningi, reglulegri endurskoðun og nánu eftirliti heilbrigðisstarfsfólks. Sérstaklega er varað við beitingu einangrunar gagnvart einstaklingum sem ekki hafa verið dæmdir.“
Ragnheiður segir rannsóknir sýna að einangrun geti valdið varanlegum skaða á andlegri og líkamlegri heilsu:
„Þekking á áhrifum langvarandi einangrunar er vel skjalfest. Rannsóknir í sálfræði, læknisfræði og taugavísindum sýna að félagsleg einangrun getur valdið alvarlegum og jafnvel varanlegum skaða á andlegri og líkamlegri heilsu. Þar má nefna skerðingu á heilastarfsemi, kvíða, þunglyndi, sjálfsskaða, áráttukennda hegðun og aukna sjálfsvígshættu. Þau einkenni sem hafa verið lýst hjá Anítu eru í fullu samræmi við þessi þekktu áhrif.
Svipuð hegðun hefur um áratugaskeið verið skjalfest hjá dýrum sem sæta einangrun eða eru haldin í of litlum búrum. Hvalir í haldi hafa sýnt sjálfsskaðandi hegðun, synt af miklum hraða á veggi búra og valdið sér alvarlegum heilaskaða. Apar í einangrun bíta sig, rífa upp feld sinn, ganga endalaust í hring og rugga sér ítrekað. Gíraffar þróa með sér óeðlileg og áráttukennd hreyfimynstur sem leiða til sjálfsskaða. Fuglar plokka úr sér fjaðrir þar til myndast blæðandi sár og sýkingar. Þessi hegðun er bein afleiðing skorts á félagslegum samskiptum og örvun. Sú lýsing sem liggur fyrir á ástandi Anítu ber uggvænlega sterk líkindi við þessi þekktu áhrif einangrunar.“
Ragnheiður segir að málið varði grundvallaröryggi og réttindi allra sem dveljast í vörslu ríkisins, en grein hennar má lesa hér.