

Hugbúnaðarfyrirtækið Varist hefur ráðið Sigga Pétursson í stöðu vöruþróunarstjóra fyrirtækisins.
Varist sérhæfir sig í netöryggislausnum á sviði vírusvarna. Meðal viðskiptavina Varist eru mörg stærstu tæknifyrirtæki heims en lausnir fyrirtækisins skanna allt að 400 milljarða skráa fyrir vírusum á dag og milljarðar einstaklinga eru varðir gegn netárásum með vörum Varist, eins og segir í tilkynningu.
Siggi hefur yfir 20 ára starfsreynslu erlendis í tækni og vöruþróun hjá leiðandi netöryggisfyrirtækum á heimsvísu og gegndi lykilhlutverki hjá bandarísku fyrirtækjunum Oracle, AWS (dótturfyrirtækis Amazon) og SentinelOne.
,,Við bjóðum Sigga velkominn til Varist og fögnum því að fá hann til liðs við öflugt teymi starfsfólks sem er fyrir hjá fyrirtækinu. Hann hefur yfirgripsmikla reynslu og þekkingu á þróun umfangsmikilla og skalanlegra netöryggislausna sem fellur vel að starfsemi Varist. Siggi hefur starfað lengi á erlendum vettvangi og mun vera okkur afar mikilvægur í samstarfi við fjölda erlendra jafnt sem og innlendra viðskiptavina,“ segir Hallgrímur Björnsson, framkvæmdastjóri Varist.