fbpx
Sunnudagur 07.september 2025
Fréttir

Hélt að sonurinn hefði fæðst andvana: 42 árum síðar fékk hún tölvupóst sem breytti öllu

Ritstjórn DV
Sunnudaginn 7. september 2025 07:30

Diane Sheen hefur áður sagt sögu sína í áströlskum fjölmiðlum.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Á þessu augnabliki snerist veröld mín á hvolf,“ segir hin nýsjálenska Diane Sheehan í átakanlegri frásögn sem birtist á vef Daily Mail á dögunum.

Diane fæddist í Wellington árið 1955, elst fimm systkina og voru foreldrar hennar strangtrúaðir kaþólikkar. Þegar hún var 19 ára flutti Diane að heiman og hélt til Ástralíu þar sem hún fékk starf á bar. Ekki löngu síðar bauðst henni tækifæri til að fara til Kanada og vinna sem au-pair. Þetta var spennandi tækifæri fyrir unga konu og ákvað hún að slá til.

„Og það var þar, þegar ég var tvítug, sem ég varð ástfangin af Jason, myndarlegum manni sem var tíu árum eldri en ég og bjó á bóndabæ skammt frá þar sem ég bjó,“ segir hún.

„Þegar við byrjuðum að stunda kynlíf notuðum við ekki getnaðarvarnir. Þar sem ég var brjálæðislega ástfangin og óreynd hvarflaði það ekki einu sinni að mér,“ segir hún.

Hún segir að dag einn hafi Jason þurft að fara til Kaliforníu í vinnuferð og ákvað hún að fara með honum. Eitthvað varð til þess að hún missti af fluginu heim. Vinnuveitandi hennar var mjög ósáttur þegar hún kom ekki til baka á tilsettum tíma og rak hana úr starfi. Og þar sem hún var ekki lengur með vinnu gat hún ekki dvalið lengur í Kanada. Þá voru góð ráð dýr og þurfti Diane að snúa aftur heim til Nýja-Sjálands.

Þegar þetta gerðist var Jason á ferðalagi og þar sem þetta var fyrir tíma samfélagsmiðla var hægara sagt en gert að komast í samband við hann. „Ég hugsaði um að reyna að skrifa honum bréf en ákvað að gera það ekki.“

Skrifaði ógleðina á söknuð

Eftir að hafa dvalið í mánuð í Nýja-Sjálandi fékk hún starf á hestabúgarði í Sydney sem ástralskur læknir átti ásamt eiginkonu sinni. Skömmu síðar fór að bera á ógleði hjá Diane sem sem hún skrifaði í fyrstu á söknuð og ástarsorg. „En ég var orðin nógu reynd til að vita hvað væri í gangi þegar maginn á mér fór að blása út,“ segir hún.

Diane segist hafa sökkt sér í vinnu næstu mánuðina og reynt að láta eins og ekkert væri. Hún faldi það fyrir hjónunum sem hún starfaði hjá að hún væri ólétt.

„Það var svo kvöld eitt í september 1976 sem hríðirnar byrjuðu,“ rifjar hún upp og bætir við að hún hafi fundið fyrir gríðarlegum sársauka um nóttina. Hún vakti hjónin og þau trúðu vart sínum eigin augum þegar þau áttuðu sig á hvað var í gangi. Eiginkona læknisins skutlaði henni á spítala en harðneitaði að fara með henni inn. Hún var bæði sár og reið.

„Sama viðhorf mætti mér á spítalanum þegar starfsfólkið leit á vinstri höndina á mér og skimaði eftir giftingarhring. Það sem gerðist næst er í móðu en ég man að ég heyrði hann aldrei gráta og ég sá ekki andlitið hans. Ég man ekki nákvæmlega hvaða orð þau notuðu en ég man að konan sagði mér að barnið hefði ekki lifað fæðinguna af. Ég fór í baklás en taldi sjálfri mér trú um að ég ætti þetta skilið. Svo var mér sagt að ég mætti ekki fara af fæðingardeildinni fyrr en ég væri búin að skrifa undir pappíra. Í blindni gerði ég það.“

Kistan opnaðist 42 árum síðar

Hún ákvað að taka allar þessar minningar og „loka þær ofan í kistu“ eins og hún orðar það. En kistan átti eftir að opnast, nánar tiltekið 42 árum síðar þegar hún fékk dularfullan tölvupóst.

„Maður sem sagðist heita Simon og væri 42 ára hafði samband við mig. Hann sagðist telja að ég gæti verið móðir hans,“ segir hún í pistlinum á vef Daily Mail. „Hann sagðist hafa verið ættleiddur skömmu eftir fæðingu. En það gat ekki verið að Simon væri sonur minn því hann lést sama dag og hann fæddist. Gat hann verið að segja satt? Var barnið mitt á lífi?“

Þó Diane hafi efast mjög sannfærðist hún þegar hún opnaði myndir sem Simon sendi henni. „Þar var mynd af dóttur hans: lítilli, brosandi stúlku sem var með krullurnar mínar og augun mín. Það var eins og ég væri að horfa á mynd af mér þegar ég var barn.“

Ákvað að fara ekki lengra með málið

Diane komst að því síðar að eins og þúsundir ógiftra mæðra víða um heim hafi hún verið fórnarlamb hryllilegs hneykslismáls.

„Slík var skömmin sem fylgdi því að eignast barn utan hjónabands. Allt fram á síðari hluta áttunda áratugarins voru þúsundir barna ættleidd gegn vilja mæðra sinna. Í mínu tilviki gengu yfirvöld enn lengra með því að ljúga að mér að barnið mitt hefði dáið, þannig að ég fékk ekki einu sinni tækifæri til að mótmæla. Að sjálfsögðu eru engar tölur til sem sýna hversu margar vesælar ungar stúlkur urðu fórnarlömb þessa sérstaklega grimmilega glæps. Ef þær höfðu, eins og ég, haldið meðgöngunni leyndri hafa líklega hundruð farið í gröfina án þess að vita að barnið þeirra lifði,” segir hún.

Diane lítur svo á að hún sé ein af þeim heppnu, eftir allt saman, því hún hafi að minnsta kosti fengið sannleikann upp á borðið.

Hún fékk tölvupóstinn umtalaða frá syni sínum árið 2019 og hafa þau átt í ágætum samskiptum síðan þá. „Ég hitti foreldrana sem ættleiddu hann. Þó að ég sorgmædd yfir því sem gerðist er ánægð með að hann fékk góða fjölskyldu.”

Hún segist einnig hafa kannað hvort hún ætti gæti farið með málið lengra, höfðað mál, en komist að því að búið væri að rífa sjúkrahúsið þar sem Simon fæddist og öllum skjölum hefði verið fargað.

„Ég ákvað að eyða ekki orku minni í baráttu sem ég myndi líklega ekki vinna, og neitaði að leyfa biturðinni að éta mig. Í staðinn valdi ég frið og að lifa í núinu,“ segir hún en tekur þó fram að lokum að öll þessi reynsla hafi myndað sár sem líklega munu aldrei gróa.

„Samband okkar er samt yndislegt og við hittumst í hverjum mánuði og tölum saman eða skrifumst á þrisvar í viku. Ég er óendanlega stolt af því hversu hlýhjartaður, umhyggjusamur maður og frábær faðir hann er – og þeim góðu tengslum sem við höfum myndað.”

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Umhverfis- og orkustofnun brást í umfangsmiklu stroki eldislaxa í Patreksfirði

Umhverfis- og orkustofnun brást í umfangsmiklu stroki eldislaxa í Patreksfirði
Fréttir
Í gær

Borgarfulltrúar sameinast í áhyggjum sínum af áformum Ingu

Borgarfulltrúar sameinast í áhyggjum sínum af áformum Ingu
Fréttir
Í gær

Einari brugðið þegar hann las tillögu Erlings – Segir þetta öfugt við það sem foreldrar þurfa

Einari brugðið þegar hann las tillögu Erlings – Segir þetta öfugt við það sem foreldrar þurfa
Fréttir
Í gær

Unga konan fundin heil á húfi

Unga konan fundin heil á húfi
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Varar við vopnakaupum Íslendinga fyrir Úkraínu – „Verðum við öruggari í kjölfarið?“

Varar við vopnakaupum Íslendinga fyrir Úkraínu – „Verðum við öruggari í kjölfarið?“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Franska konan sem grunuð er um morð á hóteli í Reykjavík látin laus og úrskurðuð í farbann

Franska konan sem grunuð er um morð á hóteli í Reykjavík látin laus og úrskurðuð í farbann