Tveir 18 ára karlmenn hafa verið ákærðir fyrir sérstaklega hættulega líkamsárás sem framin var er þeir voru 16 ára. Ekki hefur tekist að birta öðrum sakborningi ákæru í málinu og birtist hún því í Lögbirtingablaðinu í morgun.
Atvikið átti sér stað 1. október 2023 utandyra við götuna Dalbraut á Akranesi. Eru mennirnir sagðist hafa veist að jafnaldra sínum, annar tekið um háls hans að aftanverðu og hent honum í götuna. Er hann lá í götunni spörkuðu báðir mennirnir ítrekað í líkama hans og höfuð og annar þeirra sló hann með krepptum hnefa í andlitið.
Brotaþoli hlaut blóðnasir, þreyfieymsli yfir nefi, verk í mjóbaki og rispu með byrjandi gróanda hægra megin við lendhrygg.
Málið verður þingfest við Héraðsdóm Vesturlands þann 13. október næstkomandi. Öðrum ákærða er birt fyrirkall í Lögbirtingablaðinu þar sem ekki hefur tekist að birta honum ákæru í málinu. Í fyrirkallinu segir:
„Ákærði er kvaddur til að koma fyrir dóm, hlýða á ákæru, halda uppi vörnum og sæta dómi.
Sæki ákærði ekki þing, við þingfestingu máls eða á síðari stigum þess, má hann búast við því að fjarvist hans verði metin til jafns við það að hann viðurkenni að hafa framið brot það sem hann er ákærður fyrir og dómur verði lagður á málið að honum fjarstöddum.“