fbpx
Miðvikudagur 03.september 2025
Fréttir

Ákæran í Súlunesmálinu: Skipaði foreldrum sínum að sitja og standa að hennar ósk og bannaði þeim að tala við sig

Ágúst Borgþór Sverrisson
Miðvikudaginn 3. september 2025 13:00

Frá heimili fjölskyldunnar við Súlunes. Mynd: DV/KSJ

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Súlunesmálið svokallaða, sem varðar ákæru á hendur Margréti Höllu Hansdóttur, 28 ára gamalli konu, fyrir manndráp gegn föður sínum og manndrápstilraun gegn móður sinni, var þingfest í ágústmánuði.

Fyrsta fyrirtaka var í málinu í gær við Héraðsdóm Reykjaness í gær og neitaði Margrét þar sök. Að sögn Karls Inga Vilbergssonar, saksóknara í málinu, mun á næstunni verða aflað frekari læknisfræðilegra gagna og verða þau lögð fram í annarri fyrirtöku þann 19. september. Mögulega verður þá dagsetning aðalmeðferðar ákveðin. Þinghald í málinu er lokað og segist Karl Ingi því ekki getað tjáð sig frekar um það.

Faðir Margrétar andaðist að morgni föstudagsins 11. apríl á þessu ári. Í ákæru er Margrét sökuð um að hafa misþyrmt honum og móður sinni allt frá kl. 22:30 fimmtudagskvöldið 10. apríl og fram til kl. 6:39 um föstudagsmorguninn 11. mars. Í ákæru eru hins vegar tilgreind mörg önnur tilvik um meint ofbeldi Margrétar gegn foreldrum sínum, það elsta frá aðfaranótt laugardagins 30. nóvember 2024. Er hún þar sökuð um að hafa beitt foreldra sína ofbeldi í tíu klukkustundir, bæði andlegu og líkamlegu. Er hún sögð hafa öskrað á föður sinn um að hjálpa sér út úr andlegu uppnámi sínu og fyrirskipað honum að sitja og standa að hennar ósk og bannað honum að tala við sig. Jafnframt á sama tíma beitt móður sína, að föður sínum ásjáandi, líkamlegu ofbeldi, t.d. með því að slá hana og klípa í handlegg hennar.

Margrét er sökuð um að hafa í byrjun febrúar á þessu ári slegið föður sinn í hægra eyra og höfuð með þeim afleiðingum að hann hlaut blæðingar á eyranu, svokallað blómkálseyra, og þurfti að leita sér læknisaðstoðar. Þann 4. mars sló hún hann í andlitið svo hann hlaut gríðarstóra dúandi blæðingu á eyranu með afmyndun á öllum strúktúr eyrans og þurfti að leita sér lækninga vegna blæðingarinnar í eyranu.

Féll niður í forstofunni og lést

Sem fyrr segir stóðu misþyrmingar Margrétar á foreldrum sínum yfir frá hálfellefu á fimmtudagskvöldinu og alla nóttina uns faðir hennar lést um hálfsjöleytið um morguninn. Reyndi hann þá að flýja út úr húsinu en örmagnaðist og féll niður í forstofu hússins og lést stuttu síðar af völdum áverka.

Margrét er sögð hafa beitt hann margþættu ofbeldi og svipt hann lífi „með höggum og spörkum og öðrum brögðum, gripum, tökum og þrýstings og yfirfærslu á þunga, sem beindust einkum að höfði hans, búk og útlimum.“

Um áverka sem faðirinn hlaut af árásinni segir:

„Hlaut hann m.a. mikla og alvarlega áverka á höfði, í formi skráma, sára og marbletta í kringum augun og á ennissvæði, sára og mars á nefinu með undirliggjandi broti í nefbrjóskinu, blæðinga og afmyndana á eyrum, skrámusvæða á kinnum og marbletta og húðblæðinga á vinstri kinninni, sára og slímúðarblæðinga á vörunum og í munnslímhúðinni og marbletts á höku. Á framanverðum hálsi voru skrámusvæði, sem og á hægri og vinstri hlið hálsins, auk marbletta á hálsinum með undirliggjandi mjúkvefjablæðingu, þá hlaut hann mjúkvefjablæðingu aðliggjandi barkakýlinu, og efst í höfuðlöngum. Á handleggjum beggja handa voru skrámur og marblettir, þá voru marblettir á hægri þumal- og vísifingri. Mar á hægra læri og á hnénu. Stórt mar á vinstri mjöðm og niður á vinstra læri með undirliggjandi miklum margúl og marbletta á vinstra læri, hnénu og fótleggnum. Á bolnum hlaut hann fjölda og djúpa marbletti, ásamt drjúgum djúpum blæðingum í mjúkvef kviðarins og mjaðmagrindarinnar og mjúkvefjablæðingar í lendhryggnum. Fjölda rifbeinsbrota sem mynduðu brotakerfi neðarlega í aftanverðri brjóstgrindinni beggja vegna, brot í hægri þverindi fyrsta lendarhryggjarliðsins, blæðingu í lungnavefinn beggja vegna og blæðingar yst og ofarlega á hægri hlið hjartans og blæðingar í lifravefinn.“

Dánarorsök föðurins var öndunarbilun vegna áverka í aftanverðum brjóstkassa.

Miklir áverkar á móður

Margrét er sökuð um tilraun til manndráps gagnvart móður sinni. Er hún sökuð um sambærileg brot gegn móðurinni og föðurnum á tímabilinu frá 30. nóvember 2014 og fram til 11. apríl, er faðirinn lést.

Misþyrmingar Margrétar nóttina örlagaríku, 11. apríl, beindust ekki síður gegn móðurinni en föðurnum, ef marka má ákæru. Er hún sögð hafa reynt að svipta hana lífi með endurteknum hnefahöggum og spörkum í höfuð, andlit og búk og ítrekuðum höggum í hnakka og mjóbak. Hún er einnig sögð hafa klórað og klipið í háls hennar og sparkað í útlimi. Móðirin nefbrotnaði og hlaut ýmsa aðra áverka.

Saksóknari hefur ekki ákveðið hversu þungrar refsingar verður krafist yfir Margréti, verði hún fundin sek, en fyrir hönd bróður hennar er gerð krafa um miskabætur að fjárhæð sex milljónir króna. Einnig er gerð krafa um að Margrét hafi með verknaði sínum fyrirgert rétti til arfs eftir föður sinn.

Sem fyrr segir verður næsta fyrirtaka í málinu þann 19. september. Verða þá lögð fram frekari gögn í málinu. Ekki liggur fyrir hvenær aðalmeðferð verður en, sem fyrr segir, er þinghald í málinu lokað.

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Ákærður fyrir að brjóta gegn barni frá tveggja til fimm ára aldurs

Ákærður fyrir að brjóta gegn barni frá tveggja til fimm ára aldurs
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Faðir Elfars stígur fram: „Sveitarstjórinn sem fyrirskipaði aftökuna situr áfram eins og hann hafi ekki gert neitt rangt“

Faðir Elfars stígur fram: „Sveitarstjórinn sem fyrirskipaði aftökuna situr áfram eins og hann hafi ekki gert neitt rangt“