RÚV greindi frá í því morgun að forstjóri Play, Einar Örn Ólafsson, hefði boðað til starfsmannafundar. Félagið hefur gert miklar breytingar á starfsemi sinni undanfarna mánuði þar sem dregið hefur verið úr framboði á áfangastöðum og starfsfólki fækkað.
DV náði sambandi við Birgi Olgeirsson, sérfræðing í almannatengslum hjá Play, rétt eftir fundinn. Sagði hann fundinn hafa snúist um að fara yfir þær breytingar sem orðið hafa undanfarið og svara spurningum starfsfólks.
„Við erum náttúrulega búin að vera í breytingum í sumar og það var verið að fara yfir þær með starfsmönnnum. Fjölmiðlar greindu frá uppsögnum hjá okkur í júlí og ágúst og það var verið að fara yfir þessar breytingar sem hafa orðið, við erum búin að draga saman seglin á Íslandi, fara úr tíu flugvélum í fjórar.“
Aðspurður segir Birgir að ekki hafi verið kynntar frekari uppsagnir á fundinum heldur hafi fundurinn snúist um að ræða þær breytingar sem hafa orðið á starfseminni undanfarið. Í júlímánuði var 27 flugþjónum sagt upp hjá félaginu og í ágúst var 20 starfsmönnum í hinum ýmsu deildum sagt upp. Eru þetta á milli 10 til 20% af mannafla fyrirtækisins.
Birgir segir að fundurinn hafi staðið yfir í um hálftíma og verið í senn staðfundur og fjarfundur. Margir hafi verið á staðnum en aðrir tekið þátt í gegnum fjarfundabúnað. Aðspurður segir hann að ekki hafi verið spenna á fundinum né nokkuð sagt sem gæti bent til mögulegrar rekstrarstöðvunar.
„Nei, fólk hafði eðlilega spurningar um þessar breytingar og þeim var svarað.“
Birgir var spurður út hvort ágreining Play við Íslenska flugstéttafélagið (ÍFF) hafi borið á góma en ÍFF gerir athugasemdir við breytingar Play á rekstrarfyrirkomulagi sínu og sakar félagið um að fara á svig við lög um réttarstöðu starfsmanna. Birgir segir að farið hafi verið yfir þessi mál eins og fleiri á fundinum og spurningum starfsmanna hafi verið svarað.