Hilmar Þór Hilmarsson, prófessor við Háskólann á Akureyri, segir erfitt að átta sig á drónaárás Rússlands á Pólland. Rússar eru sakaðir um að hafa skotið drónum viljandi inn í Pólland en í nótt. Það vekur athygli Hilmars að Pólverjar vilja virkja 4. grein NATO-sáttmálans sem kveður á um að haldinn sé samráðsfundur meðlimaríkjanna sé öryggi einhvers þeirra ógnað. Telur hann þetta vera rétta afstöðu af hálfu Pólverja.
„Það eru ásakanir á báða bóga um að Rússland sé að láta reyna á NATO eða að Úkraína sé að reyna að draga NATO inní stríðið. Ég sá að Zelensky kallaði einhvers staðar eftir sameiginlegum loftvörnum Evrópu en þá væri hætta á að stríðið myndi breiðast út og fleiri lönd dragast inn í átökin. Hvað sem þessu líður undirstrikar þessi spenna hversu mikilvægt er að binda enda á þetta stríð, því það getur breiðst út, ekki bara af ásetningi heldur líka slysni.“
Hilmar fer yfir stöðu heimsmála í nokkuð ítarlegu viðtali við DV. Hann bendir á að Bandaríkin séu ekki lengur eina ráðandi stórveldi heimsins, eins og verið hafi í kjölfar falls Sovétríkjanna. Heimurinn sé aftur orðin margpóla og vægi Bandaríkjanna hafi minnkað þó að mikið sé.
„Það skiptir miklu máli fyrir öryggismál heimsins hvort heimurinn er einpóla, tvípóla eða margpóla. Í fyrsta skipti nú síðan fyrir seinni heimstyrjöldina er heimurinn margpóla (e. multipolar). Í aðdraganda seinni heimstyrjaldarinnar voru stórveldi eins og Þýskaland, Sovétríkin, Bandaríkin, Bretland og Japan, og heimurinn margpóla. Frá 1945 til 1989/91 verður heimurinn tvípóla (e. bipolar) með Bandaríkin og Sovétríkin sem ráðandi stórveldi, sem segja má að hafi skipt heiminum á milli sín. Árið 1991, þegar Sovétríkin falla, til ca. 2016/17, var heimurinn (e. unipolar). Þetta er kallað „the unipolar moment“ með Bandaríkin sem eina stórveldið. Síðan frá því um 2017 er heimurinn aftur orðin margpóla, með Bandaríkin, Kína og Rússland sem stórveldi. Bandaríkin eru ríkasta og öflugasta stórveldið en veldi Kína fer vaxandi. Rússland er veikast þessara þriggja en er auðlindaríkt og öflugasta eða næstöflugasta kjarnorkuveldið.“
Hilmar segir marga stjórnmálamenn og greinendur ekki gera sér grein fyrir þessari breytingu og þeir miða sína heimsýn við að Bandaríkin séu enn í þeirri stöðu að vera eina heimsveldið. Valdi Bandaríkjanna séu hins vegar takmörk sett. „Zelensky, forseti Úkraínu, talar oft um að Bandaríkin eigi að grípa til aðgerða sem mér virðast óraunhæfar í fjölpóla heimi. Þó að Bandaríkin séu ríkasta landið í heiminum og enn öflugasta stórveldið eru takmörk fyrir því hverju þau fá ráðið í heiminum eins og hann er nú.
Í núverandi margpóla heimi eru líka lönd eins og t.d., Indland, Indónesía og Tyrkland að rísa upp og verða valdameiri. Bandaríkin hafa vaxið efnahagslega en eru hlutfallslega vandaminni nú en þegar Sovétríkin féllu 1991. Sovétríkin voru varla nema um þriðjungur af hagkerfi Bandaríkjanna þegar best lét. Kína var allt annað land nú en árið 1990 eða árið 2000. Sumir virðast ekki skilja þetta. Þetta er algerlega breyttur heimur. Kína getur nú staðið jafnfætis og keppt við Bandaríkin á mörgum sviðum.“
Hilmar segir Trump lengi hafa verið neikvæðan í garð NATO og telji að Evrópuríki bandalagsins hafi lifað sníkjulífi á Bandaríkjunum hvað varðar samstarfið. „Trump er almennt frekar neikvæður út í alþjóðasamstarf og alþjóðastofnanir, þar sem hann telur að farið sé illa með Bandaríkin og komið fram af ósanngirni. Trump vill i mörgum tilvikum að Bandaríkin beiti einhliða aðgerðum eins og nú er gert í tollamálum. Hann hefur litla trú á fríverslunarsamningum.“
Segir Hilmar að með fyrri embættistöku Trumps sem forseta árið 2017 hafi Evrópa ekki lengur verið mikilvægasta svæði heims fyrir Bandaríkin en vægi Austur-Asíu hafi stóraukist vegna uppgangs Kína.
„Segja má að Bandaríkin hafi átt mikinn þátt í því að gera Kína að því stórveldi sem það er í dag. Stofnanir sem Bandaríkin settu á fót, eins og Alþjóðabankinn, Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og svo Alþjóðaviðskiptastofnunina, sem upprunalega var GATT, hjálpuðu Kína við að komast úr áætlunarbúskap í markaðshagkerfi. Kínverjar kunnu að nýta sér þjónustu þessara stofnana. Þetta eru stofnanir sem Bandaríkin voru í forystu við að setja á fót við lok seinni heimstyrjaldarinnar. Bandaríkin telja sig nú vakna upp við vondan draum og sumir vilja snúa þróuninni við, t.d. með tollum. Samskiptin við Kína hafa verið frekar slæm síðan c.a. 2016/17 og gætu enn versnað. Þessi tvö stórveldi eru nú í harðri samkeppni.
Bandaríkin vilja sennilega færa herafla frá Evrópu til Austur-Asíu vegna uppgangs Kína. Það er eðlilegt í þeirri stórveldasamkeppni sem nú er. Evrópa vill hinsvegar halda lífinu í NATO og Bandaríkjunum í Evrópu. Einhvern tíma var sagt að tilgangur NATO væri að halda Rússum úr Evrópu, Þýskalandi niðri og Bandaríkjunum í Evrópu.“
Hilmar segir að Bandaríkjamenn gætu reynt að mynda bandalag með vinveittum ríkjum í Asíu:
„Hefðbundin bandalagsríki Bandaríkjanna í Asíu hafa verið Japan, Filippseyjar og Suður-Kórea. Svo hefur Ástralía líka verði hefðbundið bandalagsríki Bandaríkjanna. Bandaríkin og Kína munu sækjast eftir bandalagi við lykillönd í Asíu eins Indónesíu, Malasíu, Taíland og Víetnam. Þessi lönd eru fjölmenn og vaxandi hagkerfi.“
NATO-samstarfið hefur veikst en Trump vill þó halda því áfram að uppfylltum vissum skilyrðum, telur Hilmar:
„Donald Trump virðist líta á NATO sem vandræðabarn en er tilbúinn að halda eitthvað áfram ef Evrópa borgar miklu meira. Nú er krafan 5% af vergri landsframleiðslu til varnarmála meðal NATO ríkja. Þetta mun þýða mikil vopnakaup frá Bandaríkjunum sem eru með öflugan hergagnaiðnað.
Ég efast um að yfirvöld í Bandaríkjunum trúi því í raun að Rússland muni geta lagt Evrópu undir sig þó að minnsta kosti sum Evrópuríki NATO tali um það. Ef yfirvöld í Bandaríkjunum tryðu því að Rússland væri líklegt til að leggja Evrópu undir sig myndu Bandaríkin síður vilja færa herafla frá Evrópu til Asíu vegna Kína. Ég held að Bandaríkin vilji ekki að Rússland verði ráðandi í Evrópu frekar en Kína í Asíu.“
Hilmar segir að Trump vilji bæta samskiptin við Rússland og ljúka Úkraínustríðinu. „Þetta sást vel á fundinum nýverið í Alaska. Evrópa virðist vilja halda stríðinu áfram og halda Bandaríkjunum áfram í Evrópu og halda lífinu í NATO. Evrópa hefur síður verið viljug að semja við Rússland en Bandaríkin eru. Evrópuleiðtogar hafa gjarnan talað um að sigra Rússland á vígvellinum í Úkraínu. Bandaríkin tala frekar um málamiðlanir og eru að mínum mati raunsærri í þessu máli en Evrópa.“
„Það fór vel á með Modi, Xi Jinping og Pútin á „Shanghai-cooperation organization“ fundinum í Kína nú nýverið. Kína, Íran, Norður-Kórea og Rússland eru komin í bandalag,“ segir Hilmar ennfremur og furðar sig á að Trump hafi lagt ofurtolla á Indland, 50%.
„Þess má geta að Bandaríkin, Indland, Japan og Ástralía eru saman í Quad-samstarfinu og undanfarna áratugi hafa Bandaríkin reynt að bæta samskiptin við Indland. Þetta hefur nú breyst a.m.k. í bili. Svo vekur athygli að leiðtogar Kína, Rússlands og Norður-Kórea voru saman við hersýningu í Kína og fór afskaplega vel á með þeim.
Fyrir Rússland til lengri tíma litið borgar sig að vera með góð samskipti við Bandaríkin og Kína en halda vissu sjálfstæði (e. non-alignment) eins og Indland hefur lengi gert. Pútin tók boði Trump á Alaska-fundinn til Bandaríkjanna fegins hendi enda hafði hann allt að vinna þar. Úkraínustríðið stendur samt enn í vegi fyrir að samskipti Bandaríkjanna og Rússlands verði eðlileg. Eins og staðan er í dag er Rússland sennilega háðara Kína en stjórnvöld í Rússlandi vilja vera til lengri tíma litið. Samband ríkjanna verður samt náið í framtíðinni með Rússland auðlindaríkt og Kína með gríðarlegan mannafla.“
„NATO ríki Evrópu hafa flest ekki efni á að greiða 5% af vergri landsframleiðslu til varnarmála. Þau hafa 10 ár til að ná þessu markmiði en vona hugsanlega að breytingar verði við forsetaskipti í Bandaríkjunum 2029, að einhver svipaður Biden komist til valda sem fer mýkri höndum um Evrópu. Mörg Evrópuríkin virtu ekki 2% markmiðið sem áður var.
Ef Bandaríkin yfirgefa Evrópu að mestu leyti og draga sig að miklu leyti úr NATO munu Evrópuríki eflaust breyta hegðun sinni þar sem Bandaríkin skipta þá minna máli og reyna að ná betri samskiptum við Kína, og til lengri tíma líka Rússland. Það mun samt taka langan tíma þar til samskipti Rússlands og ESB verða eitthvað sem kalla mætti eðlileg. Það verður mun auðveldara að bæta samskiptin og auka viðskipti við Kína.
Einn vandinn við ESB er að þetta eru 27 þjóðríki og án Bandaríkjanna í Evrópu og í NATO geta stærstu NATO ríki Evrópu farið að keppa sín á milli. Samkeppni milli Þýskalands, Bretlands og Frakkalands gæti leitt til togstreitu og hugsanlegra átaka innan Evrópu eins og sagan sýnir.
Þó að sum Evrópuríki hamist á því að Rússland muni leggja stóran hluta Evrópu undir sig eftir sigur í Úkraínustríðinu m.a. til að halda Bandaríkjunum í Evrópu og NATO, efast ég um að Bandaríkin sjálf trúi að þetta sé raunveruleg og yfirvofandi hætta. Það er líklegt að á næstu árum setji Bandaríkin minna vægi hernaðarlega á Evrópu og meira á Austur Asíu.“
„Stækkun NATO úr 12 ríkjum árið 1949 í 32 ríki í dag hefur ekki skilað þeim árangri sem vænst var og það voru að mínu mati mistök að ætla að koma Úkraínu í NATO og Trump virðist búinn að afskrifa það mál. Staðan er skelfileg í Evrópu með stríð í gangi, efnahagslega kyrrstöðu og pólitíska óvissu í stórum ríkjum eins og Frakklandi og Bretlandi. Þýskaland stendur ekki lengur vel. Það var að mínu mati óraunhæft að búast við að Bandaríkin gætu borið uppi það bandalag með 32 aðildarríki til lengdar. Bandaríkin þurfa að huga að sínum eigin málum og öðrum svæðum, aðallega Austur-Asíu en líka Mið-Austurlöndum, sérstaklega svæðinu í kringum Persaflóann.“
Hilmar segir frið í Úkraínu ekki í augsýn og spenna á milli Vesturlanda og Rússa geti varað lengi áfram.
„NATO hefur tryggt öryggi Evrópu og öryggi er nauðsynlegt fyrir efnahaglega hagsæld. Evrópa er ekki með sérstaklega bjarta framtíð efnahagslega. Vandamál Evrópu í dag tengjast mikið stríðinu í Úkraínu og afleiðingum þess. Síðan er ósamstaða í ESB sem er bandalag 27 sjálfstæðra þjóðríkja. Pólland vill t.d. mér vitanlega ekki senda hermenn til Úkraínu. Bretland og Frakkland vilja það í gegnum svokallað bandalag viljugra þjóða, en standa illa stjórnmála og efnahagslega, auk þess sem Rússar hafna þeirri hugmynd alfarið. Pólland og Ungverjaland hafa slæmt samband og mjög ólíka sýn á Úkraínustríðið. Ef Bandaríkin draga mikið úr hernaðarviðveru sinni í Evrópu vegna uppgangs Kína, og til lengri tíma fara frá Evrópu með herafla sinn og úr NATO, er líklegt að Evrópa vilji betra samband við Kína og aukin viðskipti.
Með öðrum orðum: Ef Bandaríkin fara frá Evrópu breytist sýn Evrópu á heiminn. Hagsmunir Evrópu og Bandaríkjanna fara ekki endilega saman á þessum vettvangi. Bandaríkin eru í stórveldasamkeppni við Kína á meðan hagsmunir Evrópu felast frekar í auknum viðskiptum við Kína og hugsanlega auknum fjárfestingum Kína í Evrópu.“