Breska blaðið Mirror greinir frá þessu og segir að í hópi smitaðra séu sjö börn, þar af eitt fimmtán mánaða, og kona sem komin er átta mánuði á leið.
Bera fór á veikindunum aðfaranótt sunnudags og voru 20 fluttir á sjúkrahús í gærmorgun. Fleiri tilfelli komu upp þegar líða fór á gærdaginn og eru nú rúmlega hundrað gestir, af um átta hundruð, veikir.
Grunur leikur á að smitið megi annað hvort rekja til pasta-eða fiskréttar sem voru á boðstólnum á hótelinu á laugardagskvöld. Sýni hafa verið tekin úr eldhúsi hótelsins og er það lokað meðan að rannsókn stendur yfir.
Á vef Heilsuveru kemur fram að salmonella sé baktería með yfir 2.000 afbrigði en tvö þeirra, S. Enterititis og S. Typhimurium séu algengustu afbrigði sýkingarinnar. Einkenni eru meðal annars hiti, kviðverkir, niðurgangur og ógleði eða uppköst. Einkenni ganga yfirleitt yfir á 4-5 dögum.