Palestínsk hjón sem opnuðu veitingastað í Keflavík fyrir rúmu ári síðan hafa mátt þola slæmt umtal á netinu. Þau segja þetta hafa slæm áhrif á þau tilfinningalega en þau hafa byggt upp líf sitt hér án stuðnings frá hinu opinbera.
„Ég veit ekki hvers vegna fólk segir þetta,“ segir Farah Albarq, sem kom hingað til lands sem flóttamaður ásamt eiginmanni sínum Diaa, fyrir rúmum tveimur árum síðan. Undanfarna mánuði hafa þau mátt þola að færslur séu birtar á samfélagsmiðlum um veitingastaðinn sem Diaa rekur, matarvagninn Lava Sweets, þar sem sagt er að hann sé enginn prýði og ætti að vera fjarlægður. Færslurnar hafa meðal annars verið birtar í íbúagrúbbum í Reykjanesbæ og verið fjarlægðar af stjórnendum. Þær hafa þó haft mikil áhrif á hjónin.
Farah er menntaður tannlæknir og Diaa er innanhúshönnuður. Þau hafa þó ekki enn fundið störf sem hentar þeirra menntun. En Farah starfar sem aðstoðarmaður tannlæknis og Diaa opnaði matarvagninn, þar sem hann selur kökur, sælgæti og drykki, í september í fyrra.
„Við höfum ekki lifað á bótum frá ríkinu, ég hef unnið frá fyrsta mánuði sem við komum hingað. Við vildum opna veitingastaðinn til þess að sjá fyrir okkur, byggja upp lífið hérna og bæta samfélagið með því að færa því eitthvað alveg nýtt,“ segir Farah aðspurð um hvernig það kom til að þau opnuðu vagninn.
Hún segir að allt hafi gengið vel í byrjun. Þau hafi getað opnað staðinn þrátt fyrir að hafa lítið fé á milli handanna. „Við börðumst fyrir þessu og gátum opnað án þess að fá neina hjálp frá neinum,“ segir hún. Stefnan sé að byggja staðinn enn frekar upp.
Fyrir um fjórum eða fimm mánuðum fóru þau að taka eftir árásum á netinu. Færslum á samfélagsmiðlum þar sem sagt var að staðurinn liti illa út og það þyrfti að fjarlægja hann. Meðal annars var sagt að það væri rusl allt í kringum hann, sem Farah segir að sé algjörlega úr lausu lofti gripið. Engar myndir eða myndbönd hafi verið birt til þess að sanna þær fullyrðingar en engu að síður hafi margir tekið undir þessar fullyrðingar.
Nýlega hafi verið birt færsla með mynd af brotnu grindverki og sagt að staðurinn liti út eins og „Harlem.“ Sú færsla var fjarlægð af stjórnendum síðunnar.
Farah segir að umrætt grindverk við matarvagninn hafi í tvígang verið brotið. Í fyrra skiptið hafi ölvaður maður gert það og í seinna skiptið ungmenni. Hjónin hafi látið laga grindverkið eftir fyrra skemmdarverkið og muni gera það aftur. Þetta sé ekki þeim að kenna.
Farah segist ekki þekkja til þeirra sem skrifa á þennan hátt um staðinn og ekki skilja ástæðurnar þar að baki.
„Þetta hefur mikil áhrif á okkur. Tilfinningalega erum við í rústi,“ segir hún. „Við erum að reyna að klífa upp stigann en það eru alltaf einhverjir að ýta okkur niður. Það eru margir sem styðja við bakið á okkur. Mjög gott fólk sem kemur oft til okkar. En það er líka mikið af fólki sem er á móti okkur og við vitum ekki hvers vegna. Þetta er ekki fólk sem verslar við okkur, það talar illa um okkur úr fjarlægð og vill ýta okkur burt.“
Bendir hún á að hjónin leigi lóðina af einkaaðila. Þau leyfi fólki að leggja bílum á henni og stefni á að gera staðinn fallegri í framtíðinni. En árásir sem þessar eru ekki beint hvetjandi.
„Þetta fær okkur til að hugsa um alls konar hluti. Hvers vegna er þetta að gerast?“ spyr hún. „Við elskum þetta land og erum að reyna okkar besta til að bæta samfélagið. Við komum frá virkilega slæmu ástandi heima, þar sem geisar stríð. En við erum hámenntað fólk og viljum leggja okkar af mörkum. Það mun taka einhvern tíma fyrir okkur að geta starfað við það sem við menntuðum okkur fyrir en á meðan viljum við ekki sitja og bíða og taka við bótum frá ríkinu. Við opnuðum okkar fyrirtæki, við borgum okkar skatta og allt er löglegt.““