Héraðsdómur Norðurlandsd eystra hefur dæmt konu á fertugsaldri í 30 daga fangelsi, skilorðsbundið til tveggja ára, fyrir umferðalagabrot og líkamsmeiðingar af gáleysi. Konan lenti í árekstri á Akureyri og var gefið að sök að hafa keyrt of hratt miðað við aðstæður og verið á bíl sem var á sumardekkjum Konan var með hreina sakaskrá fyrir atvikið.
Umrætt atvik átti sér stað 10. október í fyrra. Þá hafi konan keyrt, of hratt miðað við aðstæður og á vanbúnum bíl, norður Dalsbraut á Akureyri. Þegar hún nálgaðist gatnamótin við Borgarbraut reyndi hún að hægja á bifreið sinni en þá missti bíllinn veggrip vegna hálku á veginum, rann yfir umferðareyju og lenti á bifreið sem ekið var vestur Borgarbraut. Ökumaður þeirrar bifreiðar brotnaði á vinstri úlnlið.
Konan hafði ekki komið við sögu lögreglu áður og hún játaði brot sitt skýlaust fyrir dómi. Auk áðurnefnds fangelsisdóms var konunni gert að greiða um 134 þúsund krónur í sakarkostnað til verjanda síns.