Eldsvoði varð í timburhúsi að Grænásbraut í Reykjaness bæ um fjögurleytið að nóttu þann 13. júlí síðastliðinn. Að sögn íbúa í húsinu var handtekinn maður sem býr í íbúðinni þar sem eldurinn kviknaði og er málið í rannsókn lögreglu.
Fimm lögreglubílar voru á vettvangi, einn slökkviliðsbíll og einn bíll frá Brunavörnum Suðurnesja. Mikinn reyk lagði frá íbúðinni og logaði eldur um tíma. Reykmengun og sót bárust í sameign og aðrar íbúðir. Er verið að meta tjón á húsinu.
Íbúi í húsinu sem ræddi við DV segir að stórhættulegt ástand hafi skapast en engan hafi sakað. Íbúinn sem grunaður er um íkveikju hafi oft sýnt af sér undarlega hegðun og virðist eiga við drykkjuvandamál að stríða. Hann er sagður hafa játað fyrir öðrum íbúa að hafa hellt bensíni í búð sinni og tendrað eld.
DV náði sambandi við Yngva Þór Hákonarson, deildarstjóra útkallssviðs hjá Brunavörnum Suðurnesja. Hann segir að mjög greiðlega hafi tekist að slökkva eldinn sem hafi skilið eftir sig skemmdir af völdum sóts og reyks. Allir íbúar hafi verið komnir út úr húsi er viðbragðsaðilar komu á vettvang. Hvað varðar grun um íkveikju vísar Yngvi til lögreglu.
„Það urðu einhverjar skemmdir þarna út af sóti. Vaktin fór í þetta og þeir voru töluvert fljótir að slökkva eldinn.“ – Yngvi segir að öll eldsvoðamál fari í rannsókn lögreglu og það gildi um þetta mál. Hann segist sjálfur ekki draga neinar ályktanir varðandi möguleg eldsupptök enda hafi hann ekki verið á staðnum. „Það stendur aldrei neitt í okkar skýrslum um svona mál því við afhendum bara lögreglu og þeir sjá um þetta.“
Yngvi segir húsið standa í grundvallaratriðum heilt. „Það voru allir komnir út en reykkafarar fóru strax inn til að tryggja að enginn væri inni og slökktu eldinn. Það var kominn töluverður reykur á stigaganginn en hinar íbúðirnar sluppu.“ – Yngvi telur að íbúi íbúðarinnar sem kviknaði í hafi ekki getað gist íbúðinni næstu nótt eftir atvikið.
Ekki hefur náðst samband við lögregluna á Suðurnesjum vegna málsins en send hefur verið fyrirspurn um það til embættisins.