Egill Helgason segir atburðarásina í átökum í Sósíalistaflokknum vera með eindæmum. Hann deilir frétt Vísis í gærkvöld þess efnis að skipt hafi verið um lás í húsnæði flokksins í Bolholti, eftir átakafund þar sem tekist var á um yfirráð yfir félagi tengdnu flokknum, Vorstjörnunni.
„Skipt hefur verið um lás í húsnæði Sósíalistaflokksins eftir fjölsóttan fund þar sem Sanna Magdalena Mörtudóttir hlaut kjör í framkvæmdastjórn Vorstjörnunnar, styrktarfélags Sósíalistaflokksins. Húsnæðið var tekið á leigu í nafni styrktarfélagsins,“ segir í fréttinni.
Á aðalfundi Vorstjörnunnar í gærkvöld hélt fráfarandi stjórn Sósíalistaflokknum völdum í Vorstjörnunni og núverandi stjórn flokksins komst þar ekki að. „Þetta er leiguhúsnæði og þegar hún Sigrún skrifaði undir leigusamninginn fyrir hönd Sósíalistaflokksins og óstofnaðs félags þannig að leigusamningurinn er á Vorstjörnunni þannig þau tæknilega séð hafa leyfi til þess að loka flokkinn úti,“ sagði Karl Héðinn Kristjánsson, meðlimur í framkvæmdastjórn flokksins, í viðtali við Vísi.
Egill Helgason segir í Facebook-færslu sinni um málið:
„Segjum nú að ný forysta Sjálfstæðisflokksins hefði mætt í Valhöll – og þá hefði verið búið að skipta um lás!“
Þessu svarar Gunnar Smári Egilsson þannig:
„Munurinn er sá að Sjálfstæðisflokkurinn á Valhöll. Það er Vorstjarnan sem leigir húsnæðið í Bolholti en leigir síðan Sósíalistaflokknum aðstöðu ásamt mörgum öðrum félögum og samtökum. Ný forysta í flokknum skipti hins vegar um skrár fyrir skömmu svo aðrir leigjendur komust ekki inn. Þetta var leiðrétt í gær. Dæmið væri þá þannig að ef Sjálfstæðisflokkurinn leigði aðstöðu í Valhöll en hefði skipt um skrár í húsinu svo tannlæknarnir komust ekki inn, sem einnig leigðu í húsinu, þá hefði eigandi hússins skipt aftur um skrár svo tannlæknarnir kæmust á stofur sínar.“
Egill segir síðan:
„Í raun ættu svona deilur í smáflokki ekki að vera sérlega áhugaverðar, skipta sáralitlu máli – en ég man varla eftir svona hatrömmum átökum í neinum flokki eða svo mikilli heift og svona klækjabrögðum. Frekar að þetta minnir mann á deilur í kirkjusóknum hér í eina tíð. Atburðarásin er samt svo furðuleg – og lygileg – að maður getur varla haft augun af þessu. Næstum eins og þátturinn sem er sýndur á Netflix núna um skemmtiferðaskipið þar sem klósettin virkuðu ekki.“
Sannsögulegi sjónvarpsþátturinn á Netflix sem Egill vísar í var til umfjöllunar á dv.is í gær.
Segir þar frá siglingu skemmtiferðaskipsins Carnival Triump árið 2013. Skipið var á leið til hafnar þegar eldur kviknaði í vélarrúminu, sem þrátt fyrir að vera slökktur fljótt, olli alvarlegum bilunum í skipinu, sem leiddi meðal annars til þess að salerni virkuðu ekki. Úrgangur flæddi úr klósettum og farþegar þurftu að vaða óþverrann.
„Þetta var það ógeðslegasta sem ég hef séð á ævi minni. Fólk var að fela kúkinn sinn með klósettpappír og svo kúkaði einhver ofan á það og svo aftur pappír. Svona var þetta til skiptis, eins og lasagna,“ segir einn farþeganna í myndinni.
Farþegar og áhöfn um borð í skipinu voru samtals rúmlega fjögur þúsund manns, kannski svipaður fjöldi og meðlimir í Sósíalistaflokknum, en sú tala er eitthvað á reiki.