Sigurbjörn Árni Arngrímsson, skólastjóri, prófessor, og íþróttalýsandi, segir magnað að hlýða á málflutning Þorvalds Lúðvíks Sigurjónssonar um lekamálið sem er komið upp í tengslum við spæjarastofuna PPP sf. Þorvaldur kalli eftir ábyrgð héraðssaksóknara þegar sjálfur hafi hann ekki verið tilbúinn að taka ábyrgð þegar flugfélag hans fór í þrot.
Þorvaldur Lúðvík skrifaði færslu í gær þar sem hann sagðist vera að íhuga réttarstöðu sína eftir þátt Kastljóss á þriðjudaginn. Þar kom fram að á fjórða tug upptaka og uppskrift hundruð símahlerana hefði verið að finna í fórum spæjarastofunnar PPP, en stofan var stofnuð af afbrotafræðingnum Jóni Óttari Ólafssyni og lögfræðingnum Guðmundi Hauki Gunnarssyni sem báðir höfðu starfað innan lögreglunnar og hjá embætti sérstaks saksóknara. Þorvaldur var bankastjóri Saga Capital og telur ljóst að PPP hafi haft ólöglegar upptökur af persónulegum símtölum hans í fórum sínum.
Sjá einnig: Þorvaldur Lúðvík íhugar réttarstöðu sína eftir Kastljósið í gær – „Ég hefði engu breytt eða gert öðruvísi“
Þorvaldur ræddi svo við fréttastofu RÚV í kvöld þar sem hann sagði embætti sérstaks saksóknara bera ábyrgð á gagnalekanum. Þarna hafi ólöglegar hlustanir verið geymdar ólöglegar á netþjónum embættisins sem sé sorglegt að verða vitni að og í framhaldinu fórnarlamb.
„Þegar skip fer niður og sekkur þá er það vanalega skipstjórinn sem ber efstu ábyrgð og það hlýtur að vera Ólafur Hauksson og þeir sem stýrðu þeim hlustunum sem voru framkvæmdar á þessu árabili þarna eftir hrun. Síðan er þessum gögnum stolið af einhverjum tveimur ógæfumönnum síðar þegar þeir hætta í vinnu hjá sérstökum saksóknara, en það er bara eiginlega annað mál,“ sagði Þorvaldur sem sagðist ætla að skoða hvort persónuverndarlög eða réttur hans til friðhelgi einkalífs hafi verið brotin í málinu.
Sigurbjörn segir magnað að heyra Þorvald tala með þessum hætti því hann hafi greinilega ekki litið svo á að skipstjórinn ætti að fara niður með skipinu þegar flugfélag hans, Niceair, fór í þrot.
Sigurbjörn skrifar á Facebook:
„Þetta finnst mér magnað. Þessi maður (Þorvaldur Lúðvík Sigurjónsson) segir að þegar skipið fari niður beri skipstjórinn ábyrgðina (í hans tilfelli Ólafur Þór Hauksson sérstakur saksóknari) alveg sama þó skipstjórinn hafi í raun ekki gert neitt rangt og reynt að fylgja öllum reglum. Þorvaldur Lúðvík bar hins vegar enga ábyrgð sem skipstjóri þegar Niceair sökk (eða brotlenti) og ég sat uppi með yfir 500.000 kr. í tap í viðskipum við hann (eða hans fyrirtæki). Hafði keypt af honum 10 flugleggi (á 300.000) og var með útgefna miða fyrir 6 þeirra (og þurfti að kaupa þá aftur – fermingargjöf drengsins sem var fjölskylduferð til Kaupmannahafnar). Hann bar nákvæmlega enga ábyrgð og vísaði á spænskt fyrirtæki sem gerir ekkert með úrskurði samgöngustofu (mér voru dæmdar fullar bætur). Þeir sem búa í glerhúsi ættu að spara grjótkastið (þó svo að ég sé ekki að bera saman hlerunarleka og flugfargjöld).“
Þegar stjórn Niceair sendi frá sér yfirlýsingu um að félagið yrði tekið til gjaldþrotaskipta var tekið fram að félagið hefði orðið fyrir skakkaföllum vegna vanefna erlends samstarfsaðila síns, HiFly. Þetta hafi verið óviðráðanlegar aðstæður. Þorvaldur skrifaði þá færslu á Facebook og sagði að ástæður gjaldþrotsins mætti rekja til sviksamlegra viðskipta erlends samstarfsaðila. Sjálfur hafi hann reynt til hins ítrasta að fá fjárfesta til að bjarga því sem bjargar yrði en það hafi ekki gengið upp.