Landsréttur hefur snúið við úrskurði Héraðsdóms Reykjaness þess efnis að réttað verði í máli Lögreglustjórans í Reykjavík gegn Margréti Friðriksdóttur, er varðar meintar ærumeiðingar hennar gegn héraðsdómaranum Barböru Björnsdóttur, fyrir luktum dyrum. Niðurstaða Landsréttar er að þinghald verði opið.
Málið er viðkvæmt og varðar persónuleg málefni. Ákært var vegna ummæla sem Margrét lét falla um dómarann á Facebook í kjölfar þess að hún var sakfelld fyrir hótanir gegn Semu Erlu Serdaroglu. Þeim dómi var síðan snúið við í Landsrétti og Margrét sýknuð. Í Facebook-færslunum kallaði Margrét dómarann „lausláta mellu“ sem hafi selt blíðu sína til að komast í sæti dómstjóra. Margrét rakti síðan meint framhjáhald dómarans sem hún segir að hafi valdið usla innan Héraðsdóms Reykjavíkur.
Brotaþoli krafðist þess að þinghald í málinu yrðu lokað enda ætti umfjöllun um viðkvæm einkamál hennar ekki erindi til almennings. Landsréttur hefur nú, sem fyrr segir, snúið þeirri ákvörðun við.
Landsréttur staðfestir hins vegar þá ákvörðun Héraðsdóms Reykjaness að Margrét fái að leiða fram eitt vitni í réttarhöldunum, Landsréttardómarann Símon Sigvaldason. Hún æskti þess að leiða fram tvö önnur vitni sem tengjast málinu en því var hafnað á báðum dómstigum.