Íbúar í Norðurbæ Hafnarfjarðar og Prýðahverfinu í Garðabæ eru búnir að fá sig fullsadda af mávum. Garga mávarnir öllum tímum, skíta á bíla, gogga á rúður og drepa aðra smáfugla.
Umræða um málið hefur spunnist í íbúagrúbbu Norðurbæjarins í Hafnarfirði. Er því beint til bæjarstjóra Hafnarfjarðar og Garðabæjar, þeirra Valdimars Víðissonar og Almars Guðmundssonar, að gera eitthvað í málinu.
„Í gegnum tíðina höfum við þreyjað þorrann vitandi það að það birtir til um síðir. Vorboðinn ljúfi, í byggð eru þrestirnir syngjandi inn vorið og sumarið. Sólin skýn, gróðurlykt í loftinu, krakkar úti að leika og nágrannar í vorverkum í garðinum og á spjalli á bílaplaninu. Svona er hinn sannkallaði vorboði og allt mannlíf breytist. Svona hefur þetta verið svo lengi sem ég man, en síðustu 5-7 árin hefur þessi unaðstími breyst til hins verra og nú er svo komið að það læðist að manni kvíði og reiði þegar vorið kemur sem á alls ekki að vera,“ segir málshefjandi umræðunnar, karlmaður sem býr í hverfinu. Beinir hann spjótum sínum að einum sökudólg.
„Sökudólgurinn er vargurinn sem er að yfirtaka allt fuglalíf hér í efstu byggðum Norðurbæjar Hafnarfjarðar og Prýðahverfi Garðabæjar,“ segir hann.
Vaði mávurinn uppi og hreinsi upp öll hreiður þrastarins, skíti yfir bíla, svalir og palla og gargar stanslaust frá klukkan 4 eða 5 á morgnanna og haldi vöku fyrir fólkinu.
„Þetta er ekki boðlegt lengur og veit ég að ég er að tala fyrir munn allra á þessu svæði,“ segir hann.
Miðað við viðbrögðin við færslunni þá er það rétt hjá honum. Virðast íbúar ver búnir að fá sig gjörsamlega fullsadda af mávinum.
„Ég er svo sammála þér við erum að bilast á þessu,“ segir ein kona í athugasemdum. „Þeir byrja að gogga í gluggana hjá okkur uppúr 4 á nóttunni og allt út skitið.“
Fleiri segjast vera sammála þessu. „Mávarnir sem geta nú alveg verið skemmtilegir í fjarska eru ekki jafn skemmtilegir í nálægð. Bara alls ekki!!“ segir ein kona.
Ein kona segir að hún hafi alltaf gefið þröstunum epli á vorin. En undanfarin tvö ár hafi mávurinn komið og stolið eplunum af smáfuglunum. Hún hafi séð þetta með eigin augum og það sé leiðinleg og döpur þróun.
„Ótrúlega þreytandi að hafa skítandi um alla innkeyrslu og á bílana. Þeir drápu unga úr hreiðri hér í garðinum hjá mér sem barnabörnin höfðu svo gaman að fylgjast með,“ segir ein sorgmædd amma. Annað vandamál sé það fólk sem sé að ala mávana alla daga.
Mávarnir verpa meðal annars í friðlýstu svæði í Gálgahrauni. Barátta Garðbæinga við varginn hefur verið til umfjöllunar í fréttum á undanförnum árum. Hefur málið verið rætt í bæjarstjórn Garðabæjar og hefur hún beðið um leyfi til að fá að stinga á egg.
Einnig var stofnað sérstakt félag, Mávadeildin: Terminators, sem hefur farið um og eytt hreiðrum. Hefur sumum fundist nóg um og hefur félagið verið tilkynnt til Matvælastofnunar fyrir aðgerðir sínar.