fbpx
Laugardagur 03.maí 2025
Fréttir

Heilbrigðisfulltrúi tók sér vald sem hann hafði ekki

Jakob Snævar Ólafsson
Laugardaginn 3. maí 2025 09:00

Heilbrigðiseftirlit Garðabæjar, Hafnarfjarðar, Kópavogs, Mosfellsbæjar og Seltjarnarness er til húsa í Hlíðasmára í Kópavogi. Skjáskot/Google Maps

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hefur vísað frá kæru fyrirtækisins Hreint vegna ákvörðunar Heilbrigðiseftirlits Garðabæjar, Hafnarfjarðar, Kópavogs, Mosfellsbæjar og Seltjarnarness um að starfsemi þvottahúss fyrirtækisins skyldi stöðvuð þar sem ekkert starfsleyfi væri til staðar. Segir í úrskurðinum að ákvörðunin hafi verið undirrituð af heilbrigðisfulltrúa sem hafi ekki haft vald til að taka slíka ákvörðun. Hins vegar verði að vísa kærunni frá þar sem ný ákvörðun hafi verið boðuð í málinu.

Eins og DV greindi frá í lok mars kærði fyrirtækið ákvörðunina einkum á þeim grundvelli að það væri ekki að reka neitt þvottahús og þyrfti því ekki starfsleyfi en heilbrigðiseftirlitið vildi ekki samþykkja það. Stöðvun starfseminnar var frestað á að meðan úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála var með kæruna til meðferðar.

Segjast ekki vera að reka þvottahús en Heilbrigðiseftirlitið segir annað

Í bréfi Heilbrigðiseftirlits Garðabæjar, Hafnarfjarðar, Kópavogs, Mosfellsbæjar og Seltjarnarness til Hreint í september 2024kom fram að til þvottahúsa teldist starfsemi fyrirtækja „sem sinna stórþvotti, þar sem eru iðnaðarþvottavélar og þurrkarar“ og gilti einu hvort um væri að ræða eigin þvott eða þvott fyrir þriðja aðila, en um það hafði Hreint gert ágreining. Var Hreint gert að sækja um starfsleyfi fyrir reksturinn með tölvubréfi í febrúar 2025.

Hreint andmælti þessu og benti meðal annars á að öll starfsemi fyrirtækisins væri Svansvottuð. Svaraði heilbrigðiseftirlitið því til að fyrirtækið væri að auglýsa þvottaþjónustu á heimasíðu sinni og þessi starfsemi væri svo sannarlega starfsleyfisskyld.

Enn af stórþvotti

Í kæru Hreint var fullyrt að það væri engin skylda samkvæmt lögum að fyrirtæki sem noti þvottavélar og þurrkara í rekstri sínum þurfi að sækja um starfsleyfi sem þvottahús. Það viðhorf að miða við „eitthvað sem kallist stórþvottur“ og notkun iðnaðarþvottavéla og þurrkara, væri ekki í samræmi við lög. Fyrirtækið stóð fast á því að það væri hvorki að reka þvottahús né efnalaug.

Sagðist fyrirtækið vera ræstingarfyrirtæki og fari starfsemi þess fram á verkstað hvers og eins viðskiptavinar. Notast sé við þvottavél og þurrkara til að geta framkvæmt þjónustu en ekki sé boðið upp á að þvo vörur viðskiptavina. Krafa heilbrigðiseftirlitsins um að fella lítinn hluta starfseminnar undir skilgreininguna „þvottahús“ félli ekki undir meðalhófsreglu stjórnsýslulaga.

Víst þvottahús

Í andsvörum sínum hélt Heilbrigðiseftirlit Garðabæjar, Hafnarfjarðar, Kópavogs, Mosfellsbæjar og Seltjarnarness sig við það að Hreint væri að reka þvottahús og þyrfti því starfsleyfi. Fyrirtækið auglýsti þvottaþjónustu á heimasíðu sinni fyrir viðskiptavini þar sem leigð væri vara. Þá væri þvottur sóttur til viðskiptavina og honum skilað hreinum til baka. Um töluvert umfang væri að ræða enda væri þvottur þveginn bæði fyrir fyrirtækið og viðskiptavini hans.

Vísaði eftirlitið meðal annars til þess að í viðauka reglugerðar um losun frá atvinnurekstri og mengunarvarnaeftirlit væri talinn sá atvinnurekstur sem heilbrigðisnefnd veiti starfsleyfi. Undir lið um ýmislegan atvinnurekstur væru talin þvottahús. Ekki væri nánari skilgreining á hugtakinu í reglugerðinni og væri það því verkefni heilbrigðiseftirlitsins að skilgreina hversu viðamikil starfsemi þvottahúss krefðist starfsleyfis.

Hreint andmælti þessum fullyrðingum og sagði það ætti að vera fyrst og fremst að vera hlutverk löggjafans að skilgreina matskennd hugtök eins og þvottahús. Yrði skilningur heilbrigðiseftirlitsins lagður til grundvallar væri ljóst að fjölmörg fyrirtæki myndu skilgreinast sem þvottahús og þurfa starfsleyfi fyrir það eitt að hafa yfir að ráða iðnaðarþvottavél og þurrkara sem væru nýtt í atvinnustarfsemi. Heilbrigðiseftirlitið hefði sömuleiðis engar forsendur til að meta umfang starfsemi fyrirtækisins.

Heimildarleysi en frávísun

Í niðurstöðu úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála segir að ákvörðun um stöðvun þvottahússstarfsemi Hreint hafi verið undirrituð af heilbrigðisfulltrúa fyrir hönd Heilbrigðiseftirlits Garðabæjar, Hafnarfjarðar, Kópavogs, Mosfellsbæjar og Seltjarnarness. Í samþykkt um þetta tiltekna heilbrigðiseftirlit segi hins vegar að heimild til að knýja á um framkvæmd ráðstöfunar við framsal eftirlits og annað sem varði valdsvið og þvingunarúrræði sé þó eingöngu í höndum heilbrigðisnefndar sveitarfélaganna.

Þar sem stöðvun starfsemi telst vera þvingunarúrræði segir nefndin að ákvörðun um slíkt verði því aðeins tekin af heilbrigðisnefndinni sjálfri og hafi heilbrigðisfulltrúinn því ekki haft valdheimild til að taka þessa ákvörðun. Megi raunar skilja ákvörðunina að þessu leyti þannig að boðuð sé önnur ákvörðun þessa efnis, sem sé þó ekki til að dreifa. Í úrskurðinum er þó ekki tiltekið hvaða orð í umræddri ákvörðun gefi það til kynna að ný ákvörðun sé framundan í málinu hjá Heilbrigðiseftirliti Garðabæjar, Hafnarfjarðar, Kópavogs, Mosfellsbæjar og Seltjarnarness. Niðurstaða nefndarinnar er hins vegar þar af leiðandi sú að engin kæranleg ákvörðun sé til staðar í málinu og vísa beri því kæru Hreint frá.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Miðaði á dimmiterandi menntskælinga

Miðaði á dimmiterandi menntskælinga
Fréttir
Í gær

„Þetta er ekki aðeins fjárhagslegt áfall. Þetta hefur djúpstæð áhrif á líf fólks, andlega heilsu þeirra og framtíðarmöguleika“ 

„Þetta er ekki aðeins fjárhagslegt áfall. Þetta hefur djúpstæð áhrif á líf fólks, andlega heilsu þeirra og framtíðarmöguleika“ 
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Sigurður Kári fór alltaf í kröfugöngu á 1. maí en segir skugga liggja yfir deginum í ár – „Með ólíkindum“

Sigurður Kári fór alltaf í kröfugöngu á 1. maí en segir skugga liggja yfir deginum í ár – „Með ólíkindum“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Efling lætur Morgunblaðið heyra það – „Mikið óskaplega er þetta smámannleg fyrirsögn“

Efling lætur Morgunblaðið heyra það – „Mikið óskaplega er þetta smámannleg fyrirsögn“