Maðurinn var ákærður fyrir að hafa ráðist að öðrum manni á bílastæði við Pollagötu á Ísafirði, skellt honum í jörðina og síðan sparkað einu sinni í höfuð hans. Afleiðingarnar urðu þær að fórnarlambið hlaut skurð á vinstri augabrún, tímabundnar sjóntruflanir, heilahristing og höfuðverk.
Maðurinn játaði brot sitt skýlaust og krafðist verjandi hans vægustu refsingar sem lög leyfa. Þá krafðist hann sýknu af einkaréttarkröfu en brotaþoli gerði kröfu um að hann greiddi skaða- og miskabætur samtals að fjárhæð 1,5 milljónir króna.
Að mati dómsins horfði skýlaus játning ákærða til málsbóta. „Hins vegar verður að leggja til grundvallar að árás ákærða í garð brotaþola hafi verið tilefnislaus auk þess sem hún fól í sér spark í höfuð á liggjandi manni sem telja verður háskalegt athæfi,“ segir í niðurstöðu dómsins.
Manninum var gert að greiða fórnarlambi sínu 746.798 krónur, auk vaxta, og málskostnað að upphæð 79.360 krónur. Þá var honum gert að greiða málsvarnarlaun verjanda síns, 372 þúsund krónur og 20 þúsund krónur í annan sakarkostnað. Samtals eru þetta um 1,2 milljónir króna.
Fangelsisrefsingin er skilorðsbundin til tveggja ára.