fbpx
Þriðjudagur 20.maí 2025
Fréttir

Björn tjáir sig um stöðu Gyllta kattarins og hvort Degi sé um að kenna – „Eins og þegar ég hrasaði á gangstéttarhellu við ráðhúsið fyrir tveimur árum“

Ragna Gestsdóttir
Þriðjudaginn 20. maí 2025 12:23

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Það er mjög einkennileg taktík hjá ákveðnu verslunarfólki að æpa sífellt um hvað allt sé ömurlegt hjá þeim, en um leið búast við því að það laði að fólk. Eins og þú værir að halda partý en myndir passa að láta vita í boðskortinu að þú ætlir þér í raun ekkert að laga til, ekki bjóða upp á góðar veitingar og svona heilt yfir bjóða bara mjög leiðinlegu fólki. En um leið kvarta svo yfir því opinberlega að enginn hafi komið – og það sé öllum öðrum að kenna nema sjálfum þér. Nei, djók. Ekki „öllum“. Degi B. Eggertssyni!“

segir Björn Teitsson borgarfræðingur í grein sinni sem hann skrifar í kjölfar frétta um að eigendur verslunarinnar Gyllti kötturinn í Austurstræti í miðbæ Reykjavíkur hafi ákveðið að loka versluninni þar og flytja hana á Granda. Ástæðan er að þeirra sögn sú að viðskiptavinir þeirra séu hættir að mæta í verslunina af því að engin bílastæði eru við verslunina.

Segist ekki hafa heyrt um Gyllta köttinn, en allt sé þetta Degi að kenna

Sjálfur segist Björn ekki hafa heyrt um Gyllta köttinn í mörg ár, en kannski sé hann einn um það.

Í grein sinni segir Björn að líklega sé ástandið fyrrum borgarstjóra, Degi B. Eggertssyni að kenna, líkt og allt annað sem miður er í borginni hvort sem um miðbæinn er að ræða eða önnur hverfi.

„Er mögulega við einhvern að sakast um lélegt gengi í verslun og þjónustu, annan en þann sem ákveður að selja verslun og þjónustu sem enginn vill eða veit af? Eða kannski er þetta bara Degi að kenna. Eins og þegar ég hrasaði á gangstéttarhellu við ráðhúsið fyrir tveimur árum. Klárlega honum að kenna. Eða þegar síðustu vídeóleigunni var lokað. Degi að kenna. Þegar fótanuddtæki duttu úr tísku. Degi að kenna. Eða þegar Bíóhöllin hætti í Mjóddinni. Degi að kenna. Helvítis R-listinn!“

Björn fer yfir fjölda bílastæða í miðborginni og segir að í nágrenni við verslunina Gyllta köttinn séu um 1.600 bílastæði í miðbænum.

„Það eru fleiri bílastæði en voru fyrir 30 árum og fleiri en fyrir 20 árum. Í miðbæ Reykjavíkur hefur aldrei verið jafn mikið af gangandi vegfarendum í sögu borgarinnar og einmitt nú. Sem er einmitt fólk sem er líklegt til að líta við inn í verslun. Fólk sem er inni í bíl getur ekki verslað við Gyllta köttinn, síðast þegar ég gáði var þar ekki bílalúga.“

Björn bendir á að aldrei hafi verið fleiri leiðir fyrir verslanir og aðra sem veita þjónustu til að láta vita af sér.

„Í sögu mannkyns hafa aldrei verið fleiri leiðir til að miðla því sem verslun selur, til að láta vita af sérstöðu sinni, til að bjóða viðskiptavini velkomna. Enda blómstra fjölmargar verslanir víðs vegar um miðborgina – og það þrátt fyrir alþjóðlega þróun um meiri netverslun sem er einmitt á kostnað smásölufyrirtækja. Sú verslun var metin á 32,6 milljarða árið 2024, sem var 30% aukning frá árinu áður. Getur verið að sú þróun hafi meiri áhrif á örlög fataverslana en að vera í bestu mögulegu aðstæðum í miðbæ Reykjavíkur?“

Ástand miðborgarinnar alltaf Degi að kenna

Björn byrjar grein sína á tölum um gjaldþrot fyrirtækja og segir þeim hafa fækkað milli áranna 2023 og 2024, en að meðaltali fari 2-3 fyrirtæki á hausinn á dag. Svo virðist sem það sé ávallt fyrrum borgarstjóra að kenna þegar það gerist á ákveðnum stað, miðborginni, og þannig fjalli fjölmiðlar um það.

„Árið 2024 voru 851 fyrirtæki á Íslandi tekin til gjaldþrotaskipta, sem er 30% fækkun frá árinu 2023 þegar 1.220 fyrirtæki urðu gjaldþrota. Af þessum 851 fyrirtækjum voru 339 með virkni árið áður, þ.e. höfðu rekstrartekjur eða greiddu laun árið 2023. Þetta er 9% fækkun frá fyrra ári. Þrátt fyrir að fjölda fyrirtækja sem hætta starfsemi fari fækkandi, sem er jákvætt, eru þetta samt um tvö til þrjú fyrirtæki sem „fara á hausinn“ á degi hverjum að meðaltali. Ástæðurnar geta verið margvíslegar. En af einhverjum ástæðum er það ávallt Degi B. Eggertssyni að kenna þegar fyrirtæki fer á hausinn á ákveðnum ferkílómetra á landinu – og þegar það gerist kyrja fjölmiðlar sama lagið. En ef fyrirtæki fer á hausinn í Ármúlanum? Eða í iðnaðarhverfi í Hafnarfirði? Er það líka bílastæðaaðgengi að kenna? Af hverju fjalla fjölmiðlar aldrei um það? Eða voru kannski eðlilegar ástæður fyrir því að fyrirtæki fór á hausinn?“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 7 klukkutímum

„Þarf íþróttahreyfingin virkilega að fórna ímynd sinni og forvarnarhlutverki fyrir skammtímafjárhagslegan ávinning?“

„Þarf íþróttahreyfingin virkilega að fórna ímynd sinni og forvarnarhlutverki fyrir skammtímafjárhagslegan ávinning?“
Fréttir
Fyrir 7 klukkutímum

Trump er brjálaður út í fjölmiðilinn – „Ég aðvara þessa „drullusokka“ aftur“

Trump er brjálaður út í fjölmiðilinn – „Ég aðvara þessa „drullusokka“ aftur“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Beina til eigenda að gæta að gæludýrunum í góða veðrinu

Beina til eigenda að gæta að gæludýrunum í góða veðrinu
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Byggði kastala til að vinna hjarta Ástu – „Það þurfti eitthvað alveg extra til að loka þessum ástarsamningi“

Byggði kastala til að vinna hjarta Ástu – „Það þurfti eitthvað alveg extra til að loka þessum ástarsamningi“