„Að gefnu tilefni – og mér þvert um geð – sé ég mig knúinn til að svara fyrir síendurteknar ásakanir, rógburð og yfirgang körfuboltaþjálfarans Brynjars Karls Sigurðssonar og hans fylgisfólks í minn garð – nú síðast á nýliðnu íþróttaþingi ÍSÍ þar sem ég var sakaður að vera annar upphafsmanna (ásamt Hafrúnu Kristjánsdóttir, prófessor og deildarforseta íþróttafræðideildar Háskólans í Reykjavík) að skipulögðu „mannorðsmorði“ í hans garð með „með lygum og óhróðri“ sem hafi staðið yfir í nær átta ár – sem og þá afvegaleiðingu sem hópurinn hefur stuðlað að í tengslum við gagnrýni á störf og háttsemi þjálfarans,“ segir Viðar Halldórsson, prófessor í félagsfræði við Háskóla Íslands, í aðsendri grein á Vísir.is.
Viðar greinir frá því að hann hafi birt grein fyrir fjórum árum um þjálfunaraðferðir Brynjars Karls Sigurðsonnar, körfuboltaþjálfarans umdeilda, í kjölfar sýningar heimildarmyndarinnar Hækkum rána, þar sem hann varaði við aðferðum Brynjars en hann hafi byggt gagnrýni sína á fræðilegu mati. Brynjar saki hann um að vera með sig á heilanum en hann hafi þó lítt minnst á Brynjar og störf hans síðan hann birti umrædda grein.
Viðar sakar Brynjar um að gera börn að tilraunadýrum með því að láta þau gangast undir þjálfunaraðferðir sem ganga þvert á vísindalega þekkingu:
„Í pistlinum gagnrýndi ég vinnubrögð þjálfarans sem sýnd voru í myndinni á fræðilegum forsendum. Meðal annars með þeim orðum að aðferðirnar sem sýndar voru í myndinni gengu gegn „fræðilegri þekkingu vísindasamfélagsins, hagnýtri þekkingu íþróttasamfélagins, stefnu íþróttayfirvalda, skipulagi íþróttastarfs hér á landi og þeirri íþróttamenningu sem hér ríkir.” Kjarni gagnrýninnar fólst í því að þjálfarar geta ekki gert eftirlitslausar tilraunir á börnum í íþróttum, sem ganga þvert á vísindalega þekkingu hvers tíma – líkt og þjálfarinn sjálfur staðfesti að hann væri að gera í viðtali við Kastljós á þessum tíma og ítrekað síðan. Í viðtalinu hélt þjálfarinn því enn fremur fram að hann væri í raun einn fær um að gera þessa tilteknu tilraun á börnunum, enda væri alfarið byggt á hans hugmyndum og því væri sú þekking og færni ekki á færi annarra.
En slík tilraunastarfsemi einstaklinga á börnum, sem þetta dæmi er merki um, er algjörlega ótæk. Ekki síst þegar slíkar tilraunir eru ekki undir eftirliti fagaðila, og hvað þá heldur þegar þær ganga gegn stefnu íþróttayfirvalda, viðurkenndri fræðilegri þekkingu á þjálfun og þroska barna, og taka ekki mið af þeim fjölþættu, flóknu og ófyrirséðu afleiðingum sem óreyndar þjálfunaraðferðir kunna að hafa í för með sér fyrir iðkendur.“
Viðar segir að Brynjar og stuðningsfólk hans afvegaleiði umræðuna og láti í veðri vaka að gagnrýnin á aðferðir Brynjars snúist um eitthvað annað en hún gerir. Viðar sér sig knúinn til að benda á að kjarni þessarar gagnrýni snúist ekki um eftirfarandi atriði:
„En hver er kjarni gagnrýni minnar og annars fræðafólks á aðferðir og háttsemi þjálfarans? Til að það sé á hreinu þá vil ég fyrst ítreka hvað er ekki kjarni málsins.
Allt ofangreint er afvegaleiðing frá kjarna málsins.“
Viðar segir að kjarninn í gagnrýninni á aðferðir Brynjars snúist um að þær feli í sér óverjandi tilraunastarfsemi á börnum í íþróttum. „Það er með öðrum orðum ekki forsvaranlegt fyrir íþróttahreyfingu, sem haldið er uppi af opinberu fé ríkis og sveitarfélaga, að gera þjálfun barna og ungmenna að einkamáli einstaka þjálfara.“
Viðar bendir ennfremur á að í heimildarmyndinni Hækkum rána hafi sjónum eingöngu verið beint að sigurvegurunum en ekkert hafi heyrst í þeim sem hafi farið illa út úr þjálfunaraðferðum Brynjars:
„Til að mynda komu sjónarhorn fórnarlamba þjálfunaraðferða þjálfarans og háttsemi hans, þeirra ungu stúlkna sem hröktust úr körfuboltanum, jafnvel með sár á sálinni, ekki fram í myndinni. Myndin sagði eingöngu sögu sigurvegaranna en ekki hinna sem var fórnað á þeirra kostnað. En þjálfarinn hefur ítrekað gert lítið úr upplifunum þeirra á öðrum vettvangi. Með öðrum orðum þá hefði frekar verið hægt að gagnrýna mig ef ég hefði farið og fylgst með æfingum hjá þjálfaranum og þeim iðkendum sem eftir voru, en hunsað hin óæskilegu fórnarlömb tilraunarinnar sem ekki stóðust forsendur hennar. Það er fullkomlega réttmætt að koma sjónarhornum annarra en sigurvegaranna til skila. Að þau börn eigi sér málsvara var mikilvægt inntak gagnrýni minnar.“
Greinina má lesa hér.