Fjölmiðlamaðurinn Egill Helgason gagnrýnir græðgi við vinsæla ferðamannastaði á Íslandi. Segir hann að framganga fyrirtækjanna með bílastæðaöppum sé umhugsunarverð.
„Í staðinn fyrir t.d. hóflegt komugjald á ferðamenn eða einhvers konar náttúruverndargjald, þá höfum við fengið Klondyke-æði á bílaplönum,“ segir Egill í færslu á samfélagsmiðlum og birtir mynd af gjaldskrá við Fjallsjökul þar sem gjaldið er frá 1.000 til 8.500 krónur.
„Út um allt land spretta upp gjaldmælar við ferðamannastaði – og líka þótt þjónusta þar sé barasta engin,“ segir hann. „Og þeir sem ekki borga fá bakreikning þar sem gjöldin hafa margfaldast á fáum klukkutímum.“
Landeigendum er bannað að rukka inn á ferðamannastaði þannig að þeir rukka í bílastæðin í staðinn. Egill segist ekki sjá ekki sjá lausn til að koma í veg fyrir þessa græðgi.
„Kannski er ekki hægt að koma lögum yfir þetta athæfi – en sem aðferð til að taka peninga af ferðafólki er hún ekki til sóma,“ segir Egill. „Framganga fyrirtækjanna sem gera út á bílastæðaöpp er líka umhugsunarverð því þau virðast selja þessar „lausnir“ sínar af miklu kappi.“
Græðgi á bílastæðum við ferðamannastaði er einnig til umræðu á Facebook-grúbbunni Bakland ferðaþjónustunnar. Það var Adolf Ingi Erlingsson sem hóf umræðuna um það.
„Getur fólk bara ákveðið að rukka hvar sem er fyrir hvað sem er? Sami ónýti malarslóðinn og sama ómerkilega malarplanið,“ segir hann og vísar til gjaldskrár á áðurnefndum Fjallsjökli.
Hefur færslan fengið mikil viðbrögð.
„Ætlar þjóðgarðurinn bara að taka þessu þegjandi? Hvenær ætlar ríkið að fara að stíga inní þessa vitleysu,“ segir einn. „Þetta er að verða algjörlega galið …fælir frá ferðamenn,“ segir annar.