Afstaða, félag um bætt fangelsismál og betrun, hlaut mannréttindaverðlaun Reykjavíkurborgar 2025.
Heiða Björg Hilmisdóttir borgarstjóri afhenti í dag Guðmundi Inga Þóroddssyni, formanni Afstöðu mannréttindaverðlaun Reykjavíkurborgar 2025 fyrir ómetanlegt starf hennar í þágu fanga og aðstandenda þeirra.
Verðlaunin voru veitt í Höfða í dag 16. maí, á mannréttindadegi Reykjavíkurborgar, og er markmið dagsins að vekja athygli á mannréttindum borgarbúa og mannréttindastefnu borgarinnar. Það var mannréttindaráð sem samþykkti á fundi sínum að Afstaða, félag um bætt fangelsismál og betrun hlyti verðlaunin. Handhafi verðlaunanna hlýtur að launum 600 þúsund krónur.
Verðlaunin eru veitt árlega til einstaklinga, hópa, félagasamtaka eða stofnana sem á eftirtektarverðan hátt hafa staðið vörð um mannréttindi.
Öflugur málsvari bættra fangelsismála
Í rökstuðningi valnefndar segir meðal annars:
„Afstaða heimsækir reglulega öll fangelsi landsins og veitir stjórnvöldum aðhald sem öflugur málsvari bættra fangelsismála á Íslandi. Afstaða, sem í ár fagnar 20 árum, samanstendur af sjálfboðaliðum, jafningjum og fagfólki og leggur félagið áherslu á jafningjastuðning, endurhæfingu og endurkomu einstaklinga í samfélagið eftir afplánun.
Félagið stendur að fræðslu um fangelsi orsakir fangavistar og afleiðingar hennar út frá ýmsum sjónarhornum og veitir lögfræðiráðgjöf og tekur þátt í opinberri umræðu á faglegan og ábyrgan hátt.“
„Þetta er búið að vera tveggja áratuga barátta fyrir mannréttindum fanga og fjölskyldum þeirra.” segir Guðmundur Ingi Þóroddsson, formaður Afstöðu. Samtökin hafi talað fyrir aðgengi að meiri menntun og geðheilbrigðisþjónustu og styrkingu fjölskyldubanda. „Það er mikilvægt að rödd fanga heyrist í allri stefnumótun.“
„Reykjavíkurborg vinnur með öllum sem láta sig mannréttindi varða og það er mikilvægt að minna okkur á að standa vörð um mannréttindi. Mannréttindaráð Reykjarvíkur hefur verið virkt í um 17 ár og við ætlum að halda áfram að leggja okkar að mörkum, ég óska Afstöðu innilega til hamingju með verðlaunin í ár,” sagði Heiða Björg Hilmisdóttir borgarstjóri við afhendingu verðlaunanna. Hún bætti við að það væri afar mikilvægt að styðja við samtök eins og Afstöðu því þó að við höldum stundum að á Íslandi séu öll mannréttindi virt, fáum við reglulega áminningu um að við erum fjarri því að hafa náð settu marki.