Rúmlega þrítugur Pólverji hefur verið ákærður fyrir tvær tilraunir til stórfelldra fíkniefnabrota. Fyrra brotið var framið í lok ágúst árið 2022. Ákærði er þá sagður hafa reynt að sækja og taka við rúmlega fimm þúsund stykkjum af OxyContin 80 mg töflum, sem ætlaðar voru til söludreifingar hér á landi í ágóðaskyni. Fíkniefnin voru í pappakassa, falin í fjórum pakkningum innan um fatnað og kodda sem hafði verið komið fyrir ofan á pakkningunum. Kom þetta hingað til lands með póstsendingu frá Póllandi. Sambýliskona ákærða var skráður móttakandi sendingarinnar. Lögreglan lagði hald á sendinguna á póstmiðstöðinni við Stórhöfða 32 í Reykjavík og fjarlægði efnin úr pappakassanum. Ákærði sótti sendinguna miðvikudaginn 31. ágúst 2022 á pósthúsið við Höfðabakka 9, Reykjavík, og fór með hana á heimili sitt við götuna Katrínarlind í Reykjavík, en þar var hann handtekinn skömmu síðar.
Síðara brotið var framið á þessu ári, nánar tiltekið í fyrra hluta febrúar. Reyndi ákærði þá að taka á móti rétt tæplega fjórum kg af 3-klórómetýlokatínón. Fíkniefnin voru falin í einum af fimm stálfótum sem komu hingað til lands með póstsendingu frá Póllandi þann 10. febrúar. Lögreglan lagði hald á sendinguna í vöruhúsi Icetransport að Selhellu 9 í Hafnarfirði og fjarlægði efnin úr stálfætinum og kom gerviefnum þar fyrir í staðinn, ásamt hlustunar- og eftirfararbúnaði lögreglu. Ákærði sótti sendinguna í vöruhúsið við Selhellu og kom henni fyrir í bíl sem hann ók áleiðis að Flókagötu í Reykjavík, þar sem hann lagði bílnum. Síðar um daginn ók hann bílnum frá Flókagötu að bensínstöð N1 við Átrúnsbrekku þar sem hann skildi bílinn eftir og fór með strætisvagni á heimili sitt við Katrínarlind. Þar var hann handtekinn skömmu síðar.
Málið verður þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur þann 19. maí næstkomandi.