Segir SBU að einn njósnari hafi verið handtekinn og vitað sé um samverkamann hans. Hlutverk þeirra var að stunda njósnir í Úkraínu og reyna að finna veikleika í vörnum landsins við ungversku landamærin.
SBU birti upptöku af handtöku annars njósnarans sem er sagður tengjast ungverska hernum. Í upptökunni sést maður í dökkblárri hettupeysu þegar hann er leiddur á brott af tveimur úkraínskum hermönnum. Síðar í upptökunni ræðir hann um ásakanirnar á hendur honum.
„Í fyrsta sinn í sögu Úkraínu hefur leyniþjónustan komið upp um net njósnara frá leyniþjónustu ungverska hersins, sem stunduðu njósnir til að brjóta Úkraínu niður,“ segir í tilkynningu frá SBU.
SBU segir að hlutverk ungversku njósnaranna hafi verið að afla upplýsingar um úkraínska herinn í héraðinu Transkarpatien en þar búa 80.000 til 150.000 manns sem tilheyra ungverska minnihlutanum í héraðinu.
SBU segir að njósnararnir hafi leitað að veikleikum í land- og loftvörnum og hafi aflað upplýsinga um pólitískar skoðanir íbúa héraðsins.
Peter Szijjarto, utanríkisráðherra Ungverjalands, var ósáttur við þessar ásakanir SBU og á fréttamannafundi í Búdapest á föstudaginn sagði hann þetta vera „áróður“ gegn Ungverjalandi og að þetta eigi sér enga stoð í raunveruleikanum.