Hann segir að myndin sem Úlfar, sem jafnframt er yfirmaður landamæraeftirlits á Keflavíkurflugvelli, dró upp í viðtali í Dagmálum Morgunblaðsins þann 8. Apríl síðastliðinn sé sláandi. „Undan hlýtur að svíða hjá þeim stjórnmálamönnum sem ábyrgð bera á þessu ótrúlega klúðri,“ segir hann í aðsendri grein í Morgunblaðinu í dag.
Hann bendir á að Ísland sé eyja og ekkert ætti að vera einfaldara en að hafa landamærin í lagi.
„Úlfar nefnir m.a. að 95% allra þeirra sem til landsins koma fari í gegnum landamæraeftirlitið á Keflavíkurflugvelli. Og þar sofum við vært á verðinum. „Við verðum að vakna,“ segir lögreglustjórinn og nefnir m.a. að erlendar glæpaklíkur hafi náð hér fótfestu með aðstoð íslenskra lögmanna. Hann nefnir líka að sum flugfélög komist upp með að brjóta alþjóðareglur og íslensk lög með því að gefa yfirvöldum ekki upp farþegalista sína. Um 7% allra flugfarþega í Keflavík koma þannig inn til landsins undir nafnleynd. Það er þægileg leið fyrir glæpagengin,“ segir Guðni og bætir við að viðtalið við Úlfar hafi nánast verið eitt samfellt neyðaróp.
„Ákall til stjórnmálamanna um að grípa í taumana, setja lög sem þrengja rörið á flugvellinum, auka við fjármagn í eftirlitið og snarminnka þetta frjálsa flæði misyndismanna til landsins. Það var nefnilega aldrei meiningin með hinu svokallaða fjórfrelsi Schengen-samkomulagsins að ótíndir glæpamenn hefðu frjálsa för til og frá landinu,“ segir hann.
„Margir sáu fjórfrelsið, frjálst flæði fólks, fjármagns, varnings og þjónustu, í hillingum þegar umræðan um aðild Íslands að Schengen-samkomulaginu hófst fyrir síðustu aldamót. Aðrir töldu það fáránlegt að opna landamæri okkar sem lítillar eyþjóðar með þessum hætti,“ segir Guðni sem rifjar svo upp ákveðið samtal.
„Ég minnist þess þegar einn æðsti ráðamaður okkar hitti þáverandi forsætisráðherra Bretlands um þetta leyti sem spurði hvort okkur dytti það virkilega í hug að ganga í Schengen og bætti við: „Það yrði algjör vitleysa af ykkar hálfu, Ísland er eyja eins og Bretlandseyjar. Landamæraeftirlitið ykkar, verandi svona einangruð eyja lengst úti í hafi, er væntanlega það allra einfaldasta í heimi.“ Við hlustuðum ekki frekar en fyrri daginn og urðum aðili að Schengen-svæðinu árið 2001 en Bretland og Írland ekki.“
Guðni segir vert að velta fyrir sér hvort Schengen sé orsök alls vanda á landamærunum. Hann spyr hvers vegna landamæri okkar hafi staðið opin um langt skeið.
„Hvers vegna eiga glæpagengi svo auðveldan aðgang að landinu? Á síðasta kjörtímabili flæddu hingað hælisleitendur og alls konar fólk sem engan rétt hafði til að setjast hér að. Líka það fólk sem við höfðum skuldbundið okkur til að veita vernd. Og upphæðirnar sem streymdu til þessa málaflokks voru mældar í milljörðum, reyndar mörgum tugum milljarða, á ári þegar verst lét.
Hann vísar svo í orð Einars S. Hálfdánarsonar hæstaréttarlögmanns sem hefur sagt að árlegur kostnaður við hælisleitendur hafi ekki numið 25 milljörðum þegar hæst lét, heldur séu 40-50 milljarðar nær lagi. Aldrei í lýðveldissögunni hafi jafn háar upphæðir verið greiddar úr ríkissjóði án heimildar í fjárlögum. Fullyrða má að þarna liggi orsök þess meðal annars að ríkisstjórnin þríbreiða dó drottni sínum.
„Sofandi flýtur landið okkar að feigðarósi. Eiturlyfin flæða inn og enn er lítið gert, segir lögreglustjórinn. Þótt hinn nýi dómsmálaráðherra hafi bæði menntun og starfsreynslu talar hann eins og þessi þróun sé óhjákvæmileg. Ég skora á dómsmálaráðherra að skoða þá fullyrðingu Úlfars Lúðvíkssonar lögreglustjóra að herða verði löggjöfina á landamærum og tryggja að engin ferðaskrifstofa eða flugvél sé undanþegin því að gefa upp nafnalista sína. Hvers vegna koma 7% flugfarþega um Keflavík með nafnleynd? Svaraðu því, Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir dómsmálaráðherra. Lokaðu þessu gati strax.“
Guðni segir að lokum að hér þurfi glæpagengin lítið að óttast vopnlausa og fjárvana lögreglu. Þau athafni sig að vild og breytir þá engu hvort heldur sem er í miðborg Reykjavíkur eða á gullna hringnum svokallaða sem hann segir að standi svo sannarlega undir nafni fyrir bíræfna vasaþjófa enda þótt í nýrri merkingu sé.
„Glæpagengin fjölmenna í skjóli veikburða landamæraeftirlits og ganga hér um rænandi og ruplandi. Stjórnvöld virðast tröllum gefin.“