

„Við erum vongóð en maður er líka bara raunsær. Við tökum þetta einn dag í einu en höldum í vonina,“ segir Agnar Jónsson, vinur Kjartans Guðmundssonar, sem enn er í öndunarvél í Suður-Afríku eftir hörmulegt bílslys 17. desember.
Agnar var í viðtali í fréttum Sýnar í kvöld. Eins og greint hefur verið frá í fréttum var Kjartan ásamt 13 ára dóttur sinni og móður sinni á leið að heimsækja son Kjartans sem er í meðferð í Suður-Afríku. Dóttir Kjartans og móðir hans létust í slysinu.
Agnar segir að Kjartani sé haldið sofandi í öndunarvél, hann hafi verið vakinn nokkrum dögum eftir slysið en svæfður aftur. Kjartan hefur ekki fengið fregnir af slysinu og andláti ástvina sinna að sögn Agnars.
„Nei, þegar hann vaknar var hann ringlaður. Hann hefur ekki komist til meðvitundar þannig að hægt sé að ræða við hann.
Það er verið að bíða eftir að hann verði nógu hraustur þannig að hægt verði að fara með hann í segulómun og aðgerðir á ósæð en það hefur ekki náðst að fara í það út af hans ástandi. Hann er á lífi, hann er að berjast og er að sýna gríðarlega þrautseigju. Við erum vongóð en maður er líka bara raunsær. Við tökum þetta einn dag í einu en höldum í vonina.“
Athygli hefur vakið líkt og DV greindi frá á annan í jólum að tvær safnanir eru í gangi vegna slyssins, önnur fyrir Kjartan sem sett var í gang þann dag og hin fyrir Maríu Ericsdóttur, móður stúlkunnar, sem vinkona hennar setti af stað 21. desember. Vildi vinur Kjartans koma því skýrt á framfæri að um tvær safnanir væri að ræða.
Sjá einnig: Safnað fyrir Kjartan sem slasaðist í bílslysi í Suður-Afríku – „Kjartan er sannur vinur“
Í samtali við Vísi segir Agnar að söfnun fyrir Kjartan verði meðal annars nýtt lögmannskostnað vegna rannsóknar á slysinu, sem varð á hættulegum vegarkafla þar sem fjölmörg slys og banaslys hafa orðið, og einnig til að standa straum af miklum ferðakostnaði í tengslum við sjúkrahúsleguna. Búið sé að manna ferðir fram í febrúar. Einnig verði áfram greitt fyrir meðferð sonarins og heimsóknir hans til föður síns.
Mbl ræðir einnig við Agnar í kvöld og hefur eftir honum að ekki gangi jafnvel að safna fyrir Kjartan eins og fyrir móðurina. Segir hann að til þessa hafi safnast um sex milljónir króna og stefnt sé að því að hafa söfnunina 100% gegnsæa og stefnt að því að stofna félagasamtök til að halda utan um söfnunina. Mbl hefur eftir óstaðfestum heimildum að strax á upphafsdögum söfnunarinnar fyrir móðurina hafi safnast á þriðja tug milljóna króna.
Aðspurður um hvort ekki hefði verið eðlilegra að hafa eina söfnun fyrir foreldrana segir Agnar við Mbl:
„Það náttúrulega stóð til að þetta ætti að vera ein söfnun fyrir báðar fjölskyldur en einhvers staðar á leiðinni, út af ástæðum sem ég get ekki svarað, þá virðist þessi söfnun fyrir móðurina hafa algerlega klofið sig frá þeim málstað sem við erum að safna fyrir núna, sem er okkar vinur, hans fjölskylda og bara hans tilvist.
Það stóð mjög skýrt samtal yfir og við vinahópurinn og aðstandendur beggja foreldranna, það þekkja allir mjög vel til móðurinnar líka, ætluðum að standa fyrir einni söfnun sem átti vonandi að dekka allan þann kostnað sem myndi falla til út af þessum harmleik. Það var bara mjög skýrt. Svo gerist það bara á sunnudeginum að mjög skyndilega koma fregnir frá móðurinni að hún vilji að vinkona sín sjái um söfnun fyrir sig.“
Agnar segir Kjartan mikið slasaðan og langt bataferli bíða hans. Segir hann ferðakostnað tveggja einstaklinga til hans viku í senn vegna kostnað upp á 4-5 milljónir á mánuði.