

Ísland er friðsælasta land í heiminum samkvæmt Global Peace Index listanum. Þetta er í sautjánda skiptið í röð sem Ísland trónir á toppi listans.
Ísland fór á toppinn árið 2008 og hefur verið þar allar götur síðan. Þrátt fyrir áföll á borð við jarðhræringar, bankahrun og heimsfaraldur hefur landinu ekki verið haggað úr fyrsta sæti og munurinn er mikill.
Samkvæmt kvarðanum er bilið á milli Íslands og Írlands, sem er í öðru sæti, jafn mikill og á milli Írlands og Finnlands sem er í tíunda sæti listans.
Önnur lönd í efstu tíu sætunum eru Nýja Sjáland, Austurríki, Sviss, Singapúr, Portúgal, Danmörk og Slóvenía.
Þýskaland er í 20. sæti, Bretland í 30., Noregur í 32., Svíþjóð í 35., Bandaríkin í 128., Úkraína í 162. og Rússland á botninum í 163. sæti.
Margir þættir eru lagðir til grundvallar listanum, meðal annars glæpir, hernaðarútgjöld, félagsleg samheldni og stöðugleiki í stjórnmálum.