

Ahmed dvelur enn á sjúkrahúsi, en hann var skotinn fimm sinnum í handlegg og öxl og hefur þurft að gangast undir flóknar aðgerðir.
Talið er að hann hafi komið í veg fyrir enn frekari harmleik um síðustu helgi þegar fimmtán manns voru skotnir til bana af feðgunum Sajid Akram og Naveed Akram.
Myndband af afhendingu ávísunarinnar í morgun hefur vakið mikla athygli á netinu, en Ahmed, sem er fæddur og uppalinn í Sýrlandi, virtist í fyrstu dálítið undrandi.
„Á ég þetta skilið,” spurði hann.
„Hvern einasta eyri,“ sagði þá sá sem afhenti honum ávísunina.
Þegar hann var spurður hvað hann vildi segja við þær tugþúsundir sem lögðu hönd á plóginn við söfnunina, sagði hann:
„Að standa saman, allt mannkynið, og skilja allt hið slæma eftir fyrir aftan sig og halda áfram að hjálpa og bjarga mannslífum. Þegar ég bjarga fólki, geri ég það frá hjartanu,“ sagði hann.
Í frétt Daily Mail segir að samfélagsmiðlanotendur hafi verið djúpt snortnir af hógværð Ahmeds.
„Þvílíkur fo***** maður. Þvílík hetja, sá á skilið styttu,“ sagði til dæmis einn.
Mörg hundruð manns voru samankomnir á Bondi Beach til að sækja Hanukkah by the Sea-hátíðina sem markaði fyrsta dag ljósahátíðar gyðinga.
Ahmed rifjaði upp aðstæðurnar á vettvangi áður en ósköpin dundu yfir.
„Þetta var fallegur dagur, allir að njóta sín, fagna með börnunum sínum, konur, karlar, unglingar,“ sagði hann og bætti við að allir hafi virst vera hamingjusamir.
„Fólk á skilið að njóta lífsins og það er réttur þeirra. Þetta land er besta land í heimi… Við ætlum ekki að standa bara og horfa lengur, það er komið nóg. Guð verndi Ástralíu. Aussie, Aussie, Aussie,“ sagði hann að lokum.