
Kona úr Vogum á Suðurnesjum hefur verið ákærð fyrir mörg brot gegn valdstjórninni á tímabilinu frá 17. júní til 2. september á þessu ári.
Hún er í fyrsta lagi sökuð um að hafa fimmtudagskvöldið 21. ágúst sparkað í mjöðm sjúkraflutningamanns inni í sjúkrabíl sem flutti hana frá heimili hennar í Vogum að Heilbrigðisstofnun Suðurnesja í Reykjanesbæ. Einnig er hún sökuð um að hafa síðar, á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja, sparkað ítrekað í alls fimm lögreglumenn sem voru þar við skyldustörf.
Viku síðar, aðfaranótt fimmtudagsins 28. ágúst, er konan, sem er á þrítugsaldri, ákærð fyrir að hafa í kjölfar handtöku við Stóru-Vogaskóla í Vogum sparkað í hné lögreglumanns og skömmu síðar spakrað í læri löreglumanns í fangaklefa á lögreglustöðinni í Reykjanesbæ.
Konan er síðan sökuð um sambærilegt ofbeldi gegn þremur lögreglumönnum við handtöku í Reykjanesbæ þann 2. september.
Konan er sökuð um eignaspjöll á bílum lögreglumanna og er það vegna atvika sem áttu sér stað í lok ágúst og byrjun september. Hún er í fyrsta lagi sökuð um að kasta þremur eggjum í bíl í eigu lögreglumanns þannig að grunnar rispur urðu á vélarhlíf bílsins.
Í öðru lagi er hún ákærð fyrir að hafa rispað ökumannshurð bíls í eigu lögreglumanns. Um þriðja tilvikið segir í ákæru:
„Aðfaranótt þriðjudagsins 2. september, lýst því yfir í samskiptum sínum við 1717 að hún væri á leiðinni til Keflavíkur að rústa bifreið í eigu lögreglumanns nr. [XXXX] og brjóta rúður í bifreið hans með rúðubrjóti og ekið að Heiðarenda í Reykjanesbæ í því skyni að vinna skemmdir á bifreið lögreglumannsins en ákærða var handtekin af lögreglu við Heiðarenda með rúðubrjót meðferðis.“
Konan er auk þess ákærð fyrir vopnalagabrot fyrir að hafa haft fjaðrahníf í vörslu sinni og síðar fyrir að bera kokkahníf með 16 cm blaði, fyrir utan Stóru-Vogaskóla í Vogum.
Málið gegn konunni verður þingfest við Héraðsdóm Reykjaness þann 11. nóvember næstkomandi.