fbpx
Fimmtudagur 06.nóvember 2025
Fréttir

Halldór vill að lögreglan rannsaki betur andlát systur hans – „Því þetta er mjög óþægilegt“

Ragna Gestsdóttir
Fimmtudaginn 6. nóvember 2025 19:00

Halldór Gylfason. Mynd: Eyþór Árnason

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Halldór Gylfason leikari og systurdóttir hans hafa óskað eftir því við lögreglu að andlát systur hans árið 2015 verði rannsakað betur. Þau vilji fá einhver svör „því þetta er mjög óþægilegt.“

Halldór er yngstur fimm systkina og hefur upplifað mörg áföll á lífsleiðinni og fjölskylda hans mikinn missi. Móðir hans lést þegar Halldór var ungur, systir hans lést ung, önnur systir hans lést fyrir áratug og faðir hans fyrir þremur árum, níræður að aldri.

Halldór segir þessa tíma hafa verið erfiða en fallega um leið í viðtali við Sigurlaugu Margréti Jónasdóttur í Segðu mér á Rás 1. 

Andlát systurinnar skyndilegt og óútskýrt

Guðbjörg var elst í systkinahópnum, fædd árið 1954. „Hún dó árið 2015, varð bara rétt sextug. Hún var dásamleg manneskja og ógeðslega skemmtileg. Það elskuðu hana allir sem unnu með henni og þekktu hana.“

Segir Halldór andlát systur sinnar hafa verið skyndilegt og óútskýrt sé hvernig andlát hennar bar að.

„Hún bjó ein á Eyrarbakka, hafði ekki alveg höndlað hamingjuna síðustu árin sem hún var á lífi. Var svolítið bitur og var svolítið að drekka. Síðan deyr hún og það er komið að henni. Þá liggur hún á grúfu inni í svefnherberginu hjá sér, vafin inn í rúmteppi og hafði tekið einhver lyf og verið að drekka.“

Halldór segir Guðbjörgu einnig hafa verið komna með drep í hjartað sem hafi mögulega dregið hana til dauða eða lyfjainntakan.

Halldór segir þó alveg skýrt að einhver manneskja hafi verið hjá henni kvöldið áður. „Það er alveg klárt mál og eitthvað gengið á, augljóslega.“ Það hafi verið komnir líkblettir á bak hennar, sem myndast á þeim fleti líkamans sem hann liggur á. „En henni hafði augljóslega verið snúið við því hún finnst dáin, liggjandi á grúfu. Þannig að það er eitthvað skrítið í gangi þarna en lögreglan afgreiðir þetta sem eitthvað óútskýrt. Þetta er mjög skrítið og óþægilegt.“

Hann segist hugsa stundum um þetta mál og nýlega hafi hann og dóttir Guðbjargar sent bréf til lögreglunnar þar sem þau óskuðu eftir að málið yrði rannsakað betur. Þau vilji fá einhver svör „því þetta er mjög óþægilegt.“

Samhent og náin fjölskylda

Unnur María, sú næsta í systkinaröðinni, lést aðeins sex ára. Hún fékk heilaæxli sem barn og lést í Danmörku þar sem hún dvaldi nokkrar vikur á spítala vegna veikindanna. Móðir Halldórs lést úr krabbameini þegar hann var 22 ára og á leið í inntökupróf í Leiklistarskólanum.

„Þetta var bara hrikalega erfitt, alveg hræðilegt. En við vorum bara og erum samstillt fjölskylda, þeir sem voru á lífi; pabbi og Gugga systir og við bræðurnir, gengum í gegnum þetta einhvern veginn. Ég veit ekki hvernig, við erum bara náin og góð og almennileg.“

Hlusta má á viðtalið við Halldór í heild sinni hér.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Gestur áhyggjufullur: Gæti reynst ástvinum hreinasta martröð

Gestur áhyggjufullur: Gæti reynst ástvinum hreinasta martröð
Fréttir
Í gær

Lögreglan varar við kræfum vasaþjófum – Fylgjast með fólki sem notar hraðbanka

Lögreglan varar við kræfum vasaþjófum – Fylgjast með fólki sem notar hraðbanka
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Borðvél sem þýðir bók á örfáum sekúndum

Borðvél sem þýðir bók á örfáum sekúndum
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Organista Glerárkirkju sagt upp störfum – „Ég var þrjóskur miðaldra karlmaður“

Organista Glerárkirkju sagt upp störfum – „Ég var þrjóskur miðaldra karlmaður“