fbpx
Þriðjudagur 04.nóvember 2025
Fréttir

„Hvað ert þú að bralla núna, Elísabet?“

Ragna Gestsdóttir
Þriðjudaginn 4. nóvember 2025 12:45

Elísabet Jökulsdóttir Mynd: Forlagið

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Elísabet Jökulsdóttir eignaðist sitt fyrsta barn árið 1976 aðeins 17 ára gömul og barnsfaðir hennar var 18 ára. Foreldrarnir ungu bjuggu saman en Elísabet lýsir því þegar sonur hennar var tekinn af henni fimm ára gamall sökum neyslu foreldranna.

„Það var voða yndislegt að ala hann upp og síðan þegar hann er fimm ára að þá er ég komin í svo mikla neyslu og mikið neyslusamband, að hann er tekinn frá mér og elst upp hjá pabba sínum og afa og ömmu vestur í Bolungarvík. Hann kemur ekkert aftur til mín fyrr en hann var orðinn 16 ára. Þá var hann byrjaður í neyslu sjálfur. Hann hefur sagt frá því opinberlega þannig að ég held að það sé ekkert leyndarmál,“

segir Elísabet í viðtali í Fullorðins, þar sem segir frá lífi sínu, ástinni á Ströndum, geðhvörfin, skriftirnar og margt fleira. Sonurinn sem um ræðir er Kristjón Kormákur Guðjónsson, sem meðal annars er fyrrum ritstjóri DV. Elísabet segir allt hafa orðið verra og hún hefði vissulega átt að fara í meðferð á Vogi.

„Ég var bara svo reið út í mömmu og barnsfaður minn og ég sá bara rautt og sá ekki minn hlut í þessu. Mér fannst þetta bara, ég væri að lifa heilögu lífi og neyslan væri bara það sem að maður ætti að stunda og allir sem reyndu að stjórna því þeir voru bara á móti mér. Konur fara í meðferð oft þegar barnið er tekið af þeim, en ég gerði það ekki fyrr en svo löngu seinna, 1992.“


Elísabet eignaðist tvíburasyni árið 1984, Garp og Jökull. Segir hún að á fermingarmyndum bræðranna sjáist vel að hún var nýkomin úr maníu, svört um augum, mikið málum og ólík sjálfri sér. Segist hún ekki hafa átt neinn pening og verið atvinnulaus og því brugðið á það ráð að hringja í Rithöfundasambandið og þá lánað fyrir tölvu til að gefa bræðrunum í fermingargjöf.
„Þetta var ófremdarástand. Árið 1996 gaf ég út bók sem heitir Lúðrasveit Ellu Stínu, sem er bara mjög fín. Og 1999, þegar ég er nýbyrjuð að taka lyf, þá skrifa ég bók sem heitir Laufey og gerist inni á geðdeild. Rosalega fín bók. Þannig að þetta var svona upp og niður, sko, alltaf.

Og ég vissi ekkert hvað tvíburarnir tóku þetta nærri sér. Ég hélt bara að ég væri svona skemmtileg mamma, alltaf í einhverjum uppátækjum. En ég gat stundum ekki komið með nesti nema fá það skrifað út í búð og þeim fannst ég ekkert alltaf skemmtileg, þó þeir hafi fyrirgefið mér. Eða það var held ég ekki spurning um að fyrirgefa, heldur bara að sætta sig við. Garpur, sonur minn, er einmitt að tala um það í viðtali núna nýlega, að þeir hafi, einhvern veginn, hann talar um að ég hafi verið markalaus og sé svo opin með allt að stundum fari ég yfir mörkin. Hann gerir mynd sem heitir Mamma mín, geðsjúklingurinn, og ég vildi nú að hún héti eitthvað annað. Hann var að stuða fólk með þessum titli og hann langaði til að stuða og ögra, og mér finnst það góðra gjalda vert.“


Faðir Elísabetar, Jökull Jakobsson, lést árið 1978, sem Elísabet segir hafa verið rosalegt áfall sem hún hafi verið í tugi ára að jafna sig á, á sama tíma og hún skrifaði, lifði lífinu og tókst á við margt.

„Ári eftir að hann deyr þá er ég komin í geðhvörf af maníu, gekk um í kjól og vildi frelsa heiminn og var að lesa Vonarstræti, þýddi von ef ég labbaði eftir Vonarstræti, að þá væri það einhver von fyrir heiminn og ég mátti ekki fara yfir Bræðraborgarstíg, þá kæmi eitthvað fyrir bræður mína, Illuga og Hrafn. Ef einhver kona hét Hlédís, það þýddi að ég ætti að gera hlé og ég var bara týnd í einhverjum svona heimi. Og síðan endar það með því að mamma tekur sjálfræði af mér og ég er lokuð inni á Kleppi. Þá er barnsfaðir minn, tvíburabarnsfaðir, farinn frá mér en ég var svo ástfangin að ég beið bara eftir að hann kæmi aftur og þá mundi allt verða betra. En ég kem mér einhvern veginn út af Kleppi árið 1979.“
Elísabet kom sér af Kleppi með aðstoð lögfræðings og þá kom í ljós að það var einhver handvömm á sjálfræðissviptingunni, þannig að það var hægt að fella hana úr gildi

„Og ég kem bara út eftir þrjá, fjóra daga og svo sit ég bara í svartasta þunglyndi allan veturinn á eftir. Og ég var með svo mikið móral yfir því að hafa misst tökin. Ég geri mér grein fyrir því að ég hef orðið veik, eða ég kalla þetta ekki veiki heldur bara rugl og geðveiki og eitthvað hræðilegt hafi gerst. Mér datt ekki í hug að ég væri með geðhvörf. Mér datt ekki í hug að kalla þetta maníu. En þá fer ég svona hátt upp og svo svona langt niður. Og mér finnst ég bara ekki eiga viðreisnarvon í samfélaginu. Og ég verði bara dæmd fyrir þetta.“

Elísabet segir að á þessum tíma hafi fólk ekki gert sér grein fyrir að um maníu væri að ræða, þó manía væri þekkt alveg frá örófi alda. „Og úr þjóðsögum og annálum þegar að fólk var læst í hundabúrum eða fóru í maníu. Ég veit um eina norður í Aðalvík, hún var bara læst inni í kofa þegar hún fór í maníu. Hún fór í maníu þannig að þá fór hún og ráfaði á milli bæja og talaði og talaði og var komin hátt upp og varð aggressív líka.“

Sjálf segist Elísabet aldrei hafa verið aggressív, heldur ofboðslega rugluð og örvæntingarfull og liðið alveg hrikalega illa en ekki vitað um um geðhvörf væri að ræða og ekki vitað að um maníu væri að ræða, ekki fyrr en seinna.

„Mér leið voða vel og svo hef ég seinna þurft að fara í maníur. Eða ekki þurft, heldur orðið fyrir því, og þá líður mér voða vel fyrstu dagana. En síðan er þetta bara örvænting, alla vega fyrir mér. Ég heyri alltaf á fólki sem þykir svo æðislegt að fara í maníu og vera í maníu. En manían sem ég fer í er Bipolar 1, þetta er kallað 1 og 2. Og þeir sem eru með Bipolar 1, þeir fara svona hátt upp yfirleitt. En Bipolar 2, þeir fara svona í maníu og þunglyndi til skiptis.“

Elísabet segist hafa verið í hrikalegar maníur, meðal annars hafi hún einu sinni næstum því verið drukknuð.

„Þá trúði ég því að væri verið að gera bróður mínum eitthvað og væri verið að kviksetja hann uppi í Bláfjöllum. Þetta eru svo hræðilegar hugmyndir sem maður fær. Og það sem myndi bjarga honum var ef ég færi út í á sem að heitir Brynjudalsá, sem er ein hraðskreiðasta á á Íslandi. Og ég hefði bara drukknað ef ég hefði farið út í ána. Ég var alltaf í kjól í maníu. Og ef að áin hefði bara aðeins náð í mig, þá hefði ég drukknað þarna. Og svo fór ég niður á Austurvöll og þá kemur einhver til mín í einhverju líki, mannslíki, og segir að hann muni taka elsta son minn frá mér ef ég fari ekki niður á Austurvöll og dansi þar nakin. Þannig að þetta er svona einhver ógn. Þú veist, að ég átti að bjarga bróður mínum, ég átti að bjarga syni mínum. Og ég fór bara og gerði þetta og dansaði nakin hér á Austurvelli. Þingmennirnir voru að koma í mat og stelpurnar í Samvinnuferðum-Landsýn stóðu uppi á svölum og voru voða hneykslaðar. Kristín Hauksdóttir heitin, blessuð sé minning hennar, hún sagði við þær allar: „Elísabet, hún veit alltaf hvað hún er að gera.“ Og þetta, mér tókst að gera þetta voða fallegt. Þetta varð eins og gjörningur. Ég var með teppi frá Írak og ég var með dúka og slæður. Og ég er að sveipa þessu öllu um mig og hlaupa þarna kringum styttuna af Jóni Sigurðssyni, með dúka og slæður og teppi. Þannig að þetta varð voða fallegt. En síðan hringir einhver á lögregluna. Þannig að löggan kemur og segir: „Hvað ert þú að bralla núna, Elísabet?“ Og mér þótti voða vænt um það að hafa þetta svona eins og ég væri Lína Langsokkur.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 20 klukkutímum

Umdeild lögreglukona ákærð fyrir uppflettingar í LÖKE

Umdeild lögreglukona ákærð fyrir uppflettingar í LÖKE
Fréttir
Fyrir 21 klukkutímum

Forsjárlaus 16 ára unglingur dæmdur fyrir ítrekaðar líkamsárásir gegn strætóbílstjóra

Forsjárlaus 16 ára unglingur dæmdur fyrir ítrekaðar líkamsárásir gegn strætóbílstjóra
Fréttir
Í gær

Örn sakfelldur fyrir vörslu á grófu barnaníðsefni – Slapp við ákæru fyrir að misnota börn fyrir 32 árum síðan þrátt fyrir játningu

Örn sakfelldur fyrir vörslu á grófu barnaníðsefni – Slapp við ákæru fyrir að misnota börn fyrir 32 árum síðan þrátt fyrir játningu
Fréttir
Í gær

„Þetta endar oft þannig að þegar barnið er orðið fullorðið þá er foreldrið orðið öryrki“

„Þetta endar oft þannig að þegar barnið er orðið fullorðið þá er foreldrið orðið öryrki“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Gufunesmálið: Ekkja Hjörleifs mætir fjárhagslegum áskorunum – „Hefur gengið í gegnum ítrekuð áföll“

Gufunesmálið: Ekkja Hjörleifs mætir fjárhagslegum áskorunum – „Hefur gengið í gegnum ítrekuð áföll“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Segir vont aðgengi að Keflavíkurflugvelli vegna bílastæðagjalda – Að leggja bílnum geti jafnvel kostað meira en flugfargjöld

Segir vont aðgengi að Keflavíkurflugvelli vegna bílastæðagjalda – Að leggja bílnum geti jafnvel kostað meira en flugfargjöld
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Barnavernd kölluð til eftir að maður ók drukkinn með tvö börn í bílnum

Barnavernd kölluð til eftir að maður ók drukkinn með tvö börn í bílnum
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Leikskólastarfsmaður játaði líkamsárás gegn fjögurra ára barni – Þurfti að líma höfuðið saman

Leikskólastarfsmaður játaði líkamsárás gegn fjögurra ára barni – Þurfti að líma höfuðið saman