

Karlmaður hefur verið dæmdur í fimm mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir skjalafals, en hann hafði sótt um vinnu og skilað inn fölsuðu sakarvottorði.
Þetta kemur fram í dómi Héraðsdóms Reykjaness frá 21. október.
Maðurinn játaði skýlaust sök og sagði brotið framið í örvæntingu. Á raunverulegu sakarvottorði kemur fram að hann hafi í tvígang verið dæmdur fyrir alvarlega líkamsárás. Vildi hann meina að hann hefði átt erfitt með hvatastjórn eftir höfuðhögg sem hann hlaut í slysi fyrir nokkrum árum sem hafi haft miklar afleiðingar fyrir hann. Hann glímdi svo við atvinnuleysi og ákvað í örvæntingu að leyna brotaferli sínum. Með skjalafalsinu braut hann gegn skilorði en dómari tók tillit til þess að maðurinn lýsti yfir iðrun.