

Á lögreglustöð 1 var óskað eftir aðstoð lögreglu við að stilla til friða á milli farþega og leigubílstjóra, en þeir voru ekki sammála um gjald fyrir ferð sem var farin. Tail átaka kom á milli manna að sögn lögreglu en frekari upplýsingar koma ekki fram.
Þá var peningalausum erlendum einstaklingi komið til aðstoðar en að sögn lögreglu var hann búinn að týna eigum sínum. Hann fékk að gista í fangaklefa þar sem hann átti ekki í nein hús að venda.
Lögregla handtók einnig par í hverfi 104 vegna líkamsárásar, eignaspjalla og vörslu fíkniefna. Parið var vistað í fangaklefa. Svo var óskað eftir aðstoð lögreglu vegna söngkonu sem var að syngja í kareókí og hafði fallið fram af sviðinu á skemmtistað í hverfi 101. Ekki koma fram upplýsingar um meiðsli konunnar.
Loks var einstaklingur sem var til vandræða á bráðamóttökunni handtekinn, en hann hafði einnig verið til vandræða annars staðar í borginni fyrr um nóttina. Hann var því vistaður í fangaklefa þar sem lögreglu þótti fullreynt að hafa hann úti á meðal almennings í því ástandi sem hann var.
Á lögreglustöð 2 voru höfð afskipti af tveimur einstaklingum sem áttu eitthvað óuppgert við húsráðanda í hverfi 210. Á lögreglustöð 3 var svo par handtekið í hverfi 111 og vistað í fangaklefa fyrir hin ýmsu brot, svo sem eignaspjöll, vopnalagabrot, sölu og dreifingu og fyrir að hlýða ekki fyrirmælum lögreglu.